Franska félagið Paris Saint-Germain er að undirbúa samningstilboð fyrir spænska varnarmanninn Sergio Ramos en það er spænska blaðið AS sem greinir frá.
Ramos er 34 ára gamall og hefur spilað með Real Madrid síðustu fimmtán ár eða frá því hann kom frá Sevilla.
Þessi hárprúði leikmaður er goðsögn í augum stuðningsmanna Madrídinga og þá hefur hann einnig verið lykilmaður í varnarleik Spánar, þar sem hann hefur unnið HM einu sinni og EM tvisvar.
Hann verður samningslaus á næsta ári og hafa samningaviðræðurnar við Real Madrid siglt í strand en Ramos neitar að tjá sig um framtíð sína þessa dagana.
Samkvæmt AS er Paris Saint-Germain að undirbúa samningstilboð fyrir Ramos en hann fær þriggja ára samning og mun þéna 18 milljónir evra í árslaun.
Zinedine Zidane, þjálfari Madrídinga, er hins vegar viss um að Ramos eigi eftir að framlengja við félagið.
„Við viljum hafa hann hér að eilífu. Ég er viss um að hann verði áfram og haldi áfram að skrifa sig í sögubækurnar," sagði Zidane.
Athugasemdir