Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 17. nóvember 2022 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Van Gaal: Katar alltof lítið til að hýsa HM
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollendinga, gagnrýndi ákvörðunina að halda HM 2022 í Katar en hrósaði mótshöldurum fyrir góða skipulagningu og vel heppnaðar nýbyggingar.


Van Gaal telur Katar vera alltof lítið land til að hýsa svona stórt mót og telur þjóðina heldur ekki eiga nægilega mikla fótboltasögu að baki.

„Maður verður að halda svona stórmót í fótboltalöndum. Markmið FIFA þegar þessi ákvörðun var tekin var framþróun ákveðinna landa og þar af leiðandi er þetta mót haldið hér, sem er hlægileg ákvörðun," sagði 71 árs gamall Van Gaal.

„Fótboltaþjóðir hafa meiri reynslu af svona mótum og það er vel hægt að nýta aðrar, heilbrigðari aðferðir til að þróa fótbolta í þessum löndum. Það þarf ekki að gefa þeim HM."

Van Gaal benti á plássleysi sem helstu ástæðuna fyrir gagnrýni sinni þar sem vinir hans og vandamenn hefðu lent í verulegum erfiðleikum með að finna gistingar í kringum mótið. Það búa aðeins 3 milljónir í Katar og eru HM leikvangarnir átta dreifðir um svæði sem er ekki nema rétt rúmir 2000 ferkílómetrar.

„Þetta er alltof lítið land til að hýsa svona mót, fjölskylda mín og vinir hafa lent í miklum vandræðum með að finna sér gistipláss en ég verð þó að viðurkenna að skipulagningin í kringum þetta mót og allar aðstæður virðast vera til fyrirmyndar."

Holland er að mæta á sitt fyrsta heimsmeistaramót síðan Van Gaal stýrði liðinu til þriðja sætis HM 2014 í Brasilíu og telur að sínir menn geti farið lengra heldur en fyrir átta árum.

„Við erum ekki með bestu leikmenn heims í liðinu okkar en við erum með frábært leikskipulag og taktík sem hentar okkar styrkleikum. Við getum farið mjög langt á þessu móti en auðvitað getur maður ekki unnið án þess að hafa heppnina með sér. Í mínum huga þá getum við staðið uppi sem sigurvegarar á þessu móti alveg eins og okkar helstu keppinautar."


Athugasemdir
banner