Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er sagt reiðubúið að leyfa ítalska miðjumanninum Cesare Casadei að yfirgefa félagið í þessum mánuði en ítölsku félögin Lazio og Torino leiða baráttuna.
Casadei er 22 ára gamall og kom til Chelsea frá Inter fyrir þremur árum.
Enzo Maresca fékk Casadei til Leicester á láni frá Chelsea á síðasta tímabili þar sem hann gerði góða hluti fyrir áramót áður en hann var kallaður aftur til Chelsea.
Síðasta sumar tók síðan Maresca við liði Chelsea eftir að hafa stýrt Leicester upp en hann hefur ekki haft mikil not fyrir Casadei á þessari leiktíð og er miðjumanninum nú frjálst að fara.
Lazio og Torino eru að berjast um leikmanninn en félögin hafa ekki náð samkomulagi við Chelsea.
Samkvæmt Fabrizio Romano er Lazio að undirbúa nýtt rúmlega 10 milljóna punda tilboð en Chelsea er sagt vilja um 12 milljónir fyrir kappann. Tilboð Torino þótti þá ekki nógu gott en óvíst er hvað Torino gerir í framhaldinu.
Chelsea vill fá stóran hluta af næstu sölu leikmannsins og kemur ekki til greina að lána hann í glugganum. Það verður því gaman að sjá hvar hann mun enda, en Lazio er líklegasti áfangastaður Ítalans í augnablikinu.
Athugasemdir