Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   lau 18. mars 2023 19:36
Brynjar Ingi Erluson
England: Vonir Chelsea um að komast í Meistaradeildina litlar sem engar
Chelsea tapaði mikilvægum stigum á Stamford Bridge
Chelsea tapaði mikilvægum stigum á Stamford Bridge
Mynd: Getty Images
Ellis Simms jafnaði undir lokin
Ellis Simms jafnaði undir lokin
Mynd: Getty Images
Chelsea 2 - 2 Everton
1-0 Joao Felix ('52 )
1-1 Abdoulaye Doucoure ('69 )
2-1 Kai Havertz ('76 , víti)
2-2 Ellis Simms ('89 )

Chelsea fór illa að ráði sínu gegn Everton með því að gera 2-2 jafntefli í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en Ellis Simms sá til þess að gestirnir færu ekki tómhentir heim.

Heimamenn voru líflegir í fyrri hálfleiknum. Liðið var vel hreyfanlegt og skapaði sér nokkur álitleg færi. Ekkert sem reyndi þó mikið á Jordan Pickford í markinu en það vantaði aðeins upp á góðan frágang á síðasta þriðjungnum.

Chelsea byrjaði síðari hálfleikinn á svipuðum nótum og í þeim fyrri en Joao Felix fékk fínt færi sem Pickford varði. Englendingurinn gat hins vegar ekki komið í veg fyrir skot Felix nokkrum mínútum síðar og boltinn í stöng og inn.

Christian Pulisic kom boltanum í netið stuttu síðar eftir sendingu frá Felix en markið dæmt af vegna rangstöðu.

Everton náði inn jöfnunarmarki á 69. mínútu. Dwight McNeil kom með fyrirgjöf inn í teiginn og náði James Tarkowski að stýra honum á Abdoulaye Doucoure sem skaut á markið en Kai Havertz var mættur til að hreinsa af línunni. Boltinn var kominn yfir línuna og fékk dómarinn þau skilaboð í eyrað og staðan 1-1.

Heimamenn voru ekki lengi að komast aftur í forystu. Reece James fór í þríhyrningsspil með Felix og komst inn í teiginn. Hann var að undirbúa fyrirgjöf er Tarkowski braut klaufalega á honum og vítaspyrna dæmd. Kai Havertz skoraði af öryggi.

Ellis Simms kom inná sem varamaður hjá Everton og var ekki lengi að láta að sér kveða. Hann jafnaði metin undir lok leiksins með góðu skoti framhjá Kepa Arrizabalaga.

Lokatölur 2-2 á Stamford Bridge. Svekkjandi úrslit fyrir Chelsea sem hefur verið á ágætis róli síðustu daga. Chelsea er í 10. sæti með 38 stig og möguleikarnir um að komast í Meistaradeild verða minni með hverjum leiknum en Everton er í 15. sæti með 26 stig en hvert stig telur í fallbaráttunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner