
„Fyrsta er brot bara hjá Ragnari Braga sem ég held að flestir sem horfi á þetta átti sig á því að það hefði verið töluvert eðlilegra að gefa gult spjald, því hann er ekkert að fara hátt í legginn á honum. Hann dettur svolítið glæfralega, kom ekkert á fullri ferð og straujaði hann á mjög þurru gervigrasi. Mér fannst það svolítið harður dómur," sagði Árni Guðnason, þjálfari Fylkis, við Fótbolta.net í dag.
Spurt var út í hvað hefði gerst í Akraneshöllinni í gær þar sem Lengudeildarlið Fylkis fékk að líta þrjú rauð spjöld í 2-1 bikartapi gegn Kára sem spilar í 2. deild. Ragnar Bragi Sveinsson (33. mín), Eyþór Aron Wöhler (45. mín) og Guðmundur Tyrfingsson (95. mín) fengu að líta rauða spjaldið í leiknum. Rauða spjaldið á Ragnar Braga má sjá í spilaranum neðst.
Árni hélt áfram.
Spurt var út í hvað hefði gerst í Akraneshöllinni í gær þar sem Lengudeildarlið Fylkis fékk að líta þrjú rauð spjöld í 2-1 bikartapi gegn Kára sem spilar í 2. deild. Ragnar Bragi Sveinsson (33. mín), Eyþór Aron Wöhler (45. mín) og Guðmundur Tyrfingsson (95. mín) fengu að líta rauða spjaldið í leiknum. Rauða spjaldið á Ragnar Braga má sjá í spilaranum neðst.
Árni hélt áfram.
Lestu um leikinn: Kári 2 - 1 Fylkir
„Það sést svo ekki mjög vel með Eyþór, það er eins og hann sé að reyna ýta í hann; ýti í hausinn á honum. Ef farið er eftir öllum reglum getur maður alveg sagt að þetta sé rautt spjald, en ef þú ert búinn að gefa eitt rautt spjald sem þú ert ekki 100% viss, virðist vera, þá er dýrt að missa annan mann út af. Svo Gummi í lokin, það er bara pirringur eftir að hafa verið 9 í mjög langan tíma. Ég sá ekki hvað hann gerði, en sagt að hann hafi sparkað í einhvern þegar hann var að hlaupa framhjá honum. Það var örugglega rétt, annað gult spjald, hafði engin áhrif á leikinn því það var svo strax flautað af."
Er hægt að horfa mikið í þennan leik hafandi verið tveimur mönnum færri lengi vel?
„Við vorum með öll tök á leiknum, sérstaklega eftir að við skoruðum, og aðeins fyrir það. Að spila á móti þessu Káraliði inn í þessari höll er ákveðin geðveiki. Það er þvílík orka í þeim og þeir eru bara vel spilandi og fínt lið. Þetta var ekki eins og við værum að spila á móti einhverju liði í 5. deild sem getur ekki neitt, þetta eru hörku góðir strákar."
„Ég hef spilað sjálfur svona leik þar sem maður er tveimur fleiri, það er ekkert auðvelt að spila sig í gegn þegar það eru átta leikmenn á teignum. Þeir voru ekkert að skapa sér mörg færi. Ég hrósa þeim sem voru inn á vellinum, stóðu þetta af sér. Þetta var aulamark sem við gáfum þeim, og svo er fínt skot sem fer í bakið á einhverjum og svo í hitt hornið."
„Það er mót eftir tvær vikur og nokkrir leikmenn sem eru að koma til baka eftir meiðsli voru komnir inn á, það hefði verið helvíti erfitt að fara í framlengingu níu á móti ellefu. Þetta fór bara eins og þetta fór."
Þú hefur þá sofið allt í lagi, ef ég les rétt í þig?
„Já já, þú tapar og tapar á ákveðinn hátt. Við gerðum okkur erfitt fyrir, þegar þú ert búinn að fá eitt rautt spjald þá er rosalega mikilvægt að halda haus. Það var alveg að koma hálfleikur og við hefðum getað skipulagt okkur öðruvísi. Bara einum færri hefðum við mögulega komist oftar í sókn, náðum sjaldan fram völlinn í seinni hálfleiknum. Það var meira högg að fá seinna rauða spjaldið, eða annað rauða spjaldið réttara sagt," segir Árni.
Halldór Jón viðbeinsbrotnaði
Fylkir varð fyrir öðru áfalli í gær ofan á tapið því Halldór Jón Sigurður Þórðarson viðbeinsbrotnaði í leiknum og verður sennilega frá næstu tvo mánuðina, allavega næstu vikurnar. Halldór kom inn á eftir um 70 mínútna leik en þurfti að fara af velli tæplega stundarfjórðungi síðar.
„Það kæmi mér á óvart ef við myndum bæta einhverju við, eða ef einhver færi. En það getur alltaf eitthvað gerst. Við erum mjög ánægðir með hópinn og mjög ánægðir með veturinn. Þetta er bara eitt slys sem við buðum upp á sjálfir og það verður til þess að við erum úr leik í bikarnum sem er leiðinlegt af því að bikarkeppnin er mikil sjarmakeppni. Hin hliðin er svo sú að nú verður meiri hvíld milli deildarleikja og því meiri líkur á góðum úrslitum í deildinni."
„Dóri er búinn að vera meiddur í allan vetur, kemur inn á í þessum leik og viðbeinið fer bara í tvennt í einhverju návígi. Sem betur fer áttum við eina skiptingu eftir, það hefði verið vont að verða bara átta eftir á þeim tímapunkti. Hann fór upp á slysó í gær og fékk þá niðurstöðu að hann væri viðbeinsbrotinn."
„Nú er páskafrí og við skoðum hlutina, það styttist í að bræðurnir Aron Snær og Axel Máni (Guðbjörnssynir) komi frá Ameríku. Þá stækkar hópurinn meira," segir Árni.
Athugasemdir