mið 18. maí 2022 18:55
Brynjar Ingi Erluson
Lyngby og Horsens einum sigri frá efstu deild - Esbjerg fallið niður í C-deildina
Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson
Mynd: Lyngby
Aron Sigurðarson getur farið upp um deild í Danmörku
Aron Sigurðarson getur farið upp um deild í Danmörku
Mynd: Horsens
Ísak Óli Ólafsson og félagar í Esbjerg eru fallnir
Ísak Óli Ólafsson og félagar í Esbjerg eru fallnir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Lyngby eru nú einum sigri frá því að tryggja sæti sitt í dönsku úrvalsdeildina eftir að liðið vann 2-1 sigur á Helsingör í dag. Horsens getur einnig komist upp um deild með sigri í næstu umferð. Esbjerg er fallið niður í C-deildina.

Lyngbi náði foyrstunni eftir aðeins tvær mínútur áður en Helsingör jafnaði undir lok fyrri hálfleiks.

Þegar 25 mínútur lifðu leiks gerði Lyngby sigurmarkið og mikilvægt var það. Lyngby er nú með 59 stig, fjórum stigum á undan Helsingör þegar tvær umferðir eru eftir.

Sævar Atli Magnússon kom inná sem varamaður hjá Lyngby á 74. mínútu leiksins en Frederik Schram sat allan tímann á bekknum.

Aron Sigurðarson var þá í byrjunarliði Horsens sem vann Nyköbing 1-0. Hann fór af velli á 83. mínútu en hann hefur átt stóran þátt í því að koma Horsens í átt að úrvalsdeildinni. Horsens er á toppnum í meistarariðli B-deildarinnar með 60 stig og er einnig einum sigri frá efstu deild.

Ísak féll með Esbjerg

Ísak Óli Ólafsson og hans menn í Esbjerg spila í dönsku C-deildinni á næsta ári eftir að hafa tapað fyrir Fremad Amager, 3-2, í fallriðli B-deildarinnar.

Esbjerg komst tveimur mörkum yfir í leiknum en glutraði niður forystunni áður en gestirnir gerðu sigurmarkið undir lok leiks. Þessi úrslit þýða það að Esbjerg spilar í C-deildinni á næsta ári en Ísak Óli kom ekki við sögu í leiknum.

Þetta er gríðarlegt fall fyrir Esbjerg sem var í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum. Liðið hafnaði í 3. sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð undir stjórn Ólafs Kristjánssonar áður en hann var látinn fara. Allt lá niður við hjá félaginu eftir það.

Tveir þjálfarar voru reknir eftir veru Ólafs og meðal annars harðstjórinn Peter Hyballa. Steffen Ernemann er aðalþjálfari liðsins í dag og Rafael van der Vaart er honum til aðstoðar.

Markalaust hjá Örebro

Axel Óskar Andrésson lék allan leikinn er Örebro gerði markalaust jafntefli við Skövde í sænsku B-deildinni. Örebro er í 8. sæti með 13 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner