Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   þri 18. júní 2024 15:02
Elvar Geir Magnússon
Ólögleg tölfræðisöfnun á leikjum í íslenskum fótbolta
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍTF hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að samtökin séu að fara í herferð með félögunum til að stoppa ólöglega tölfræðisöfnun á leikjum í íslenska boltanum.

Aðilar eru að safna gögnum ólöglega og greiða ekki fyrir þau réttindi. Hér að neðan má sjá tilkynninguna í heild sinni en á leik á dögunum var aðila vísað af Kaplakrikavelli þar sem hann var ólöglega að safna upplýsingum.

Hér má sjá fréttatilkynninguna frá ÍTF í heild sinni:

Ólögleg tölfræðisöfnun á leikjum í íslenskum fótbolta
Íslensk knattspyrnufélög eru með samning við fyrirtækið Genius Sports um tölfræðisöfnun og upplýsingagjöf af knattspyrnuleikjum í efstu deildum karla og kvenna. Fyrirtækið sendir fulltrúa á alla leiki í efstu deildum, þeir aðilar eru merktir Genius Sports og hafa fulla heimild til þess að safna upplýsingum úr leikjunum og senda þær upplýsingar áfram til kaupenda víðs vegar í Evrópu og heiminn.

Aðrir aðilar en þeir sem eru á vegum Genius Sport hafa ekki heimild til þess að safna slíkum upplýsingum og senda áfram. Þeir eru með athæfi sínu að brjóta gegn vörðum réttindum íslenskra knattspyrnufélaga, réttindum sem félögin hafa lagt gríðarlega vinnu í að verja og fá greitt fyrir til eflingar á íslenskri knattspyrnu. Fyrirtækin sem eru að stela þessum réttindum hafa aðila hér innanlands sem stunda þessa iðju, s.s. Sportradar og Runningball og það eru íslenskir fulltrúar þessara fyrirtækja sem sjá hag sinn í því að stela réttindum félaganna.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir sem að koma, framkvæmdaaðilar leikja, þ.e. félögin sjálf, stuðningsmenn og starfsmenn leikjanna taki á þessari iðju og vísi þessum aðilum út af leikvöllunum séu þeir gripnir við það að safna þessum upplýsingum saman og senda frá sér til annarra aðila. Oftar en ekki eru þessir ólöglegu aðilar með auka síma eða litla handtölvu sem þeir setja upplýsingar í og senda svo áfram.

ÍTF og íslensk knattspyrnufélög hvetja til þess að spornað verði við þessari iðju, áhorfendur tilkynni starfsmönnum leiksins verði þeir varir við slíka starfsemi og að starfsmenn leikjanna vísi viðkomandi af leikjunum. Það eru gríðarlegir fjármunir í húfi og mikilvægt að ekki komi til þess að örfáir aðilar hér innanlands komist upp með það í ósvífni sinni að hagnast á því að stela vörðum réttindum í íslenskum fótbolta.

Fyrir hönd ÍTF
Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri ÍTF

Athugasemdir
banner
banner
banner