Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 18. júlí 2024 18:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Baldvin Borgars virkilega ósáttur með fréttaflutning DV
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er allt annað en sáttur með fréttaflutning DV/433 í dag. Hann birti pistil í dag á Facebook þar sem hann gagnrýnir fréttaflutninginn harðlega. Pistilinn má nálgast neðst í fréttinni.

Forsagan er sú að eftir leik Árbæjar og Víkings Ólafsvíkur í Fótbolti.net bikarnum fór, í viðtal við Sölva Haraldsson hér á síðunni. Þar sagði Baldvin eftirfarandi:

„Það má bara ekkert segja við þessa gauka sem eru að dæma þessa leiki hjá okkur. Leikmaður númer 6 hjá Víking Ólafsvík var búinn að brjóta endalaust , hann var meira að segja nýbúinn að labba upp að mér og slá mig í andlitið. Þeir voru ekki að spjalda rassgat á Víking Ólafsvík. Mér fannst dómgæslan ekkert æðisleg í leiknum. Gary Martin var endalaust rífandi í menn, ég var nú að spá í að labba inn í klefa með treyju fyrir hann fyrst hann að var rífandi í menn allan helvítis fyrri hálfleikinn áður en hann var tekinn útaf."

Lestu um leikinn: Árbær 3 -  2 Víkingur Ó.

Þessi ummæli vöktu athygli lesenda Fótbolta.net sem tjáðu sig í athugasemdum á Facebook eins og sjá má hér að neðan.
Mynd: Skjáskot/Facebook
Mynd: Skjáskot/Facebook


DV/433 fjallaði um þessar athugasemdir í dag. Fyrirsögn greinarinnar: Upp úr sauð í Breiðholti: Viðstaddir fullyrða að Baldvin segi ekki alla söguna – „Framkoma hans var til skammar“. Þar eru ummælin úr viðtalinu birt sem og ummælin úr athugasemdakerfinu á Facebook.

Í pistlinum segir hann ekki rétt að soðið hafi upp úr. Hann segist hafa reynt að hafa samband við höfund greinarinnar en hafi ekki fengið svar.

„Ég er hinsvegar virkilega ósáttur með þennan fréttaflutning 433/DV, því þarna eru settar fram einhliða og tilfinningalegar skoðanir stuðningsfólks tapliðsins upp í bull og vitleysu án þess að hafa samband við nokkurn mann, ég hefði glaður svarað símanum við gerð þessarar fréttar og ég setti mig fljótlega í samband við umræddan fréttamann sem hefur ekki enn lagt í það að svara mér, þannig ég einfaldlega spyr, eru vinnubrögð þessa miðils virkilega svona ofboðslega léleg?" skrifar Baldvin m.a. í pistlinum sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

Pistill Baldvins
Það er kannski bara ágætt að nýta þennan vettvang til þess að svara fyrir þessa ömurlegu fréttamennsku ef svo mætti kalla.

Hér er skrifuð svokölluð “æsifrétt” upp úr kommentakerfi fótbolta.net undir viðtal við mig þar sem ég sagði frá einu tilteknu atviki í leik Árbæjar og Víkings Ólafsvíkur sem fram fór í gærkvöldi á þeim forsendum að ég gagnrýndi dómgæslu leiksins.

Það sauð hvergi uppúr í kringum þennan leik, mitt lið var hvatt til þess að breyta nafninu í “Öskuraparnir” fyrir þau “læti” sem við áttum að hafa verið með samkvæmt eldri borgara frá Ólafsvík sem sagði sína sáru skoðun eftir tapleik gegn liði í deild neðar og jú, ég sjálfur vissulega var heppinn að fá ekki rautt spjald fyrir það að hindra leikmann Ólafsvíkinga frá því að fá boltann og koma honum aftur í leik, á því momenti var ég á gulu spjaldi en leikmaður Ólafsvíkur sló mig þrisvar nokkuð léttvægt í andlitið og brosti ég yfir því frekar en að vera með leikþátt eins og hver annar vesalingur í dag hefði líklegast gert til þess að reyna að fiska þennan leikmann af velli með rautt spjald, ég sagði frá þessu atviki til rökstuðnings míns máls í viðtalinu, í gagnrýni á dómgæsluna. Það var svo notað í fyrirsögn og skapaði tiltekna umræðu sem um ræðir.

Eftir leikinn fór Brynjar þjálfari Víkinga einnig í viðtal þar sem hann hrósaði mínu liði í hástert fyrir að hafa lagt mikla ástríðu og orku í leikinn, ásamt því að hvetja sitt lið til þess að fara að okkar fordæmi, taka okkur til fyrirmyndar og mæta eins og við gerðum í gær inn í komandi leiki Víkinga. Viðhorf Brynjars er virkilega gott enda get ég ekki verið annað en stoltur yfir því hvernig mitt lið mætti til leiks, hvað strákarnir lögðu á sig til þess að vinna þennan leik og það tókst.

Ég er hinsvegar virkilega ósáttur með þennan fréttaflutning 433/DV, því þarna eru settar fram einhliða og tilfinningalegar skoðanir stuðningsfólks tapliðsins upp í bull og vitleysu án þess að hafa samband við nokkurn mann, ég hefði glaður svarað símanum við gerð þessarar fréttar og ég setti mig fljótlega í samband við umræddan fréttamann sem hefur ekki enn lagt í það að svara mér, þannig ég einfaldlega spyr, eru vinnubrögð þessa miðils virkilega svona ofboðslega léleg?

Þakka Víkingum fyrir virkilega jafnan, spennandi og skemmtilegan leik og óska ég þeim góðs gengis í baráttunni í 2. deildinni. Brynjar Kristmundsson er virkilega flottur þjálfari að gera góða hluti með öflugt og skemmtilegt lið.

Fréttamiðlum er meira en heimilt að gera sér mat úr þessum pistli, spurning hvort 433/DV sjái einhvern sóma hjá sér í að leiðrétta þessa vitleysu.

Mbk,
Baldvin Borgarsson.
Þjálfari FC Árbæjar.
Athugasemdir
banner
banner
banner