Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 18. nóvember 2020 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hvetur knattspyrnufólk sem lendir í áföllum til að sækja sér aðstoð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Draumurinn er að verða atvinnumaður í fótbolta og það er eina markmiðið. Ungt fólk sem lendir svo í áföllum eins og meiðsli geta verið og er ekki með bakland eða rétta umhverfið í kringum sig getur lent í miklu þunglyndi og vanlíðan."

Viðtal við Ævar Inga Jóhannesson var birt hér á Fótbolti.net í gær. Hann fór þar yfir þau meiðsli sem hafa verið að plaga hann undanfarin ár og svaraði ítarlega þeirri spurningu hvort hann hefði á einhverjum tímapunkti íhugað að hætta í fótbolta. Orð Ævars um andlega þáttinn í kjölfar áfalla vöktu athygli fréttaritara og eru endurbirt hér að neðan.

Viðtalið í heild sinni:
„Auðvelt að klífa fjallið þegar þú sérð toppinn en ef hann birtist aldrei ertu fljótur að þreytast"

„Ég ætla ekki að reyna að vera einhver hetja og segja að sú hugsun hafi aldrei komið upp í hugann á mér. Þetta hefur reynt alveg svakalega á mig andlega. Vonbrigðin að geta ekki hjálpað liðinu inn á vellinum eru hrikaleg. Það að líða alltaf eins og þú sért að bregðast félaginu, liðsfélögum, þjálfurum og fólkinu í kringum félagið sem styður þig endalaust áfram er hrikalega erfitt. Þú færð einhvern veginn aldrei að sýna þitt rétta andlit og það tekur á," sagði Ævar aðspurður hvort hann hefði einvhern tímann íhugað að hætta.

„Aðrir leikmenn sem hafa lent í svipuðu hafa talað um þessa tilfinningu og vita hvað ég er að tala um. Svo hefur líka verið svo mikil óvissa í kringum meiðslin, og hvað nákvæmlega er að angra mig. Það er auðvelt að klífa fjallið þegar þú sérð toppinn en ef hann birtist aldrei ertu fljótur að þreytast."

Nauðsynlegt að fá aðstoð
Ævar kom í kjölfarið inn á þá aðstoð sem hann hefur fengið vegna meiðslanna og kemur sérstaklega inn á andlega þáttinn. Hann þakkar fyrir að hafa frábært fólk í kringum sig.

„Ef ég hefði ekki verið með frábært fólk í kringum mig og þá sérstaklega ákveðna leikmenn innan hópsins, þar á meðal Eyjólf Héðins sem þekkir meiðsli betur en flestir, held ég að ég hefði verið búinn að segja þetta gott."

Ævar segir að hann hafi ekki áttað sig á því hversu mikil áhrif meiðslin hefðu á sig utan fótboltans.

„Svo stend ég fast á þeirri skoðun að ungt knattspyrnufólk sem lendir í erfiðum meiðslum eigi að leita sér hjálpar sem fyrst með andlega þáttinn. Ég persónulega var alltof lengi að gera það og það bitnaði því miður smá á fólki í kringum mig. Ég áttaði mig mögulega ekki á því hversu mikil áhrif þetta væri að hafa á mig fyrir utan fótboltann fyrr en alltof seint og því var ég lengi að „gera eitthvað” í þessu. Þetta væri bara eitthvað smotterí og ég gæti bara harkað mig í gegnum þetta. Ég var orðinn mjög þungur á þessum tíma og líklega ekkert rosa skemmtilegur að vera í kringum."

Nauðsynlegt að verði til öflugt umhverfi til að bæta andlega þáttinn
...getur lent í miklu þunglyndi og vanlíðan."

Ævar segir að hjálpin sem hann fékk hafi fengið hann til að sjá hlutina í öðru ljósi. Hann segir þá að það sé mikilvægt að ungt fólk sem lendir í áföllum viti hvert það eigi að sækja sér aðstoð.

„Eftir að ég fékk hjálp við að díla við þetta, sjá hlutina í öðru ljósi og njóta þess að fá að vera partur af þessu frábæra liði og þessum frábæra félagi sem Stjarnan er þá byrjaði mér að líða betur aftur. En þetta er langt ferli og ég er ennþá að vinna í því í dag."

„Það er nauðsynlegt að það verði til öflugt umhverfi fyrir ungt knattspyrnufólk á Íslandi til þess að bæta andlega þáttinn. Hvort sem það sé fyrir stráka eða stelpur sem lenda í erfiðum meiðslum, unga iðkendur sem eru að upplifa lélegt sjálfstraust eða vilja bæta einbeitinguna sína."


Ævar kemur að lokum inn á það þrátt fyrir framfarir sé enn mikið svigrúm innan knattspyrnu hreyfingunnar að bæta möguleika knattspyrnufólks til að sækja sér aðstoð.

„Ég átta mig á því að það eru til alvarlegri hlutir en meiðsli í fótbolta, en fyrir suma er þetta allt sem þau eiga. Draumurinn er að verða atvinnumaður í fótbolta og það er eina markmiðið. Ungt fólk sem lendir svo í áföllum eins og meiðsli geta verið og er ekki með bakland eða rétta umhverfið í kringum sig getur lent í miklu þunglyndi og vanlíðan. Þess vegna er mikilvægt að það viti hvert sé hægt að leita. Mér finnst þetta hafa batnað mjög mikið og undanfarin ár hafa verið miklar framfarir í þessu innan knattspyrnu hreyfingunnar á Íslandi og ég vona innilega að það verði sett enn meira púður í þetta. Það er mikið svigrúm til þess að bæta þetta og í staðinn munum við fá betra fótboltafólk og almennt bara heilsteyptari manneskjur í fótboltasamfélagið," sagði Ævar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner