Kristall Máni Ingason skoraði bæði mörk íslenska U21 árs landsliðsins er það lagði Skotland að velli, 2-1, í æfingaleik í Skotlandi í gær.
Skotar komust yfir eftir hálftíma en Kristall sá til þess að Ísland færi með sigur af hólmi.
Fyrra markið var ekkert með þeim fallegri sem Kristall hefur skorað en hann lét vaða í teignum, boltinn fór af varnarmanni og aftur fyrir Kristal. Hann lét vaða öðru sinni og í þetta sinn varði markvörðurinn boltann áður en hann lak yfir línuna.
Síðara markið var svo úr vítaspyrnu en hann setti boltann alveg út við stöng.
Athugasemdir