Landsliðsmaðurinn Ólafur Ingi Skúlason og félagar í Zulte-Waregem hafa verið að gera flotta hluti í belgíska boltanum. Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardag sagði Ólafur að þeir væru að færast nær bestu liðum landsins.
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan en Ólafur Ingi er ánægður í Belgíu.
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan en Ólafur Ingi er ánægður í Belgíu.
„Við búum í litlum bæ hérna fyrir utan borgina. Það er bara sveit, traktorar og kýr. Við kunnum mjög vel við okkur. Ég er með þrjú börn og konu og þau eru mjög sátt. Það er lítill og þægilegur skóli, auðvelt fyrir börnin að komast inn í tungumálið. Belgía er líka það lítið land að það tekur enga stund að skjótast í eitthvað stærra ef maður er að leita eftir því," segir Ólafur sem er ánægður með frammistöðu sína á tímabilinu.
Mesta samkeppnin um mína stöðu
„Mér gekk mjög vel í byrjun tímabilsins og var valinn í úrvalslið deildarinnar fyrstu tíu umferðarinnar. Svo meiddist ég með landsliðinu og missti af nokkrum leikjum. Það tók tíma að komast inn aftur enda hörku samkeppnina. Okkar sterkasta staða er á miðri miðjunni þar sem við erum fjórir að berjast um tvær stöður."
„Þegar ég hef spilað hefur mér fundist ganga vel og ég er nokkuð sáttur. Maður vill spila alla leiki en það koma aðstæður þar sem maður þarf að bíða eftir tækifærum."
Zulte-Waregem er sem stendur fjórum stigum frá efsta sætinu í belgísku úrvalsdeildinni þar sem baráttan er jöfn og spennandi.
Færumst nær bestu liðunum
„Við áttum frábært tímabil í fyrra og náðum að halda svipuðum hóp. Við misstum okkar helsta sóknarmann í krossbandaslit í byrjun tímabilsins og það var áfall. Það sem okkur vantar núna er kannski einhver sterkur „striker" til að geta haldið okkur algjörlega upp í toppnum," segir Ólafur sem viðurkennir að hann telji ekki mikla möguleika á að liðið geti unnið deildina þetta tímabilið.
„Eins og staðan er núna myndi ég ekki segja það. Við þyrftum að fá sterka leikmenn í janúarglugganum, vinstri bakvörð og sóknarmann, til að geta gert tilkall til þess. Það fer náttúrulega eftir því hvað hin liðin bæta sig líka. Anderlecht, Brugge og Standard eru þessi sterkustu lið en við höfum færst nær þeim. Við þurfum að styrkja liðið til að halda dampi."
Hannað fyrir stærstu félögin
Fyrirkomulag belgísku deildarinnar er mjög furðulegt. Um mitt mót skiptist deildin í tvennt þar sem efstu liðin spila í sér deild.
„Fyrirkomulagið í bikarkeppninni er líka bjánalegt og spilað heima og heiman. Mér finnst þetta allt saman gert til að sjá stærstu liðin komast í gegn frekar en minni liðin. Fyrir mér er sjarminn við bikarkeppnina sá að það á bara að vera einn leikur og sigurvegarinn kemst í gegn. Það er vandamál að allt hér er hannað fyrir stærstu félögin sem ráða mestu," segir Ólafur.
Wigan í kraftaboltum og kýlingum
Zulte-Waregem var nálægt því að komast áfram í Evrópudeildinni en eftir tap gegn Rubin Kazan í síðustu viku var sá draumur úr sögunni.
„Við vorum með þetta í okkar höndum fyrir leikinn á fimmtudaginn og nægði að gera jafntefli. Rússarnir voru bara númeri of stórir fyrir okkur. Við vorum ágætlega inn í leiknum en þetta fór illa þegar við fengum á okkur víti fimmtán mínútum fyrir leikslok," segir Ólafur Ingi en slæmur árangur liðsins á „heimavelli" varð því að falli.
„Við tókum bara eitt stig heima. Það hjálpar ekki til að við spilum í Brugge en ekki á okkar heimavelli þar sem okkar völlur uppfyllir ekki kröfur fyrir Evrópukeppnina. En það afsakar ekki neitt, við áttum sérstaklega dapran leik gegn Maribor heima og það er í rauninni sá leikur sem fer með þetta."
„Það er skrítið að eiga heimaleik en spila samt ekki á heimavelli. Þetta rekur vonandi á eftir mönnum að bæta aðstöðuna við okkar völl," segir Ólafur. Meðal mótherja liðsins í Evrópudeildinni var lið Wigan, bikarmeistarar Englands sem leika samt sem áður í B-deildinni.
„Maður sá það á leikstíl Wigan að þetta er gjörbreytt frá því að Roberto Martinez var með liðið. Það er mikið um kraftabolta og kýlingar. Maður fékk minningar frá því að maður var í ensku C-deildinni sjálfur. Miðjuspili var sleppt og boltanum bara komið á stóra senterinn. Þeir spiluðu alltaf skemmtilegan fótbolta undir stjórn Martinez en það hefur greinilega farið algjörlega út um gluggann þegar hann fór og Owen Coyle tók við þessu," segir Ólafur.
Evrópudeildin á rétt á sér
Evrópudeildin hefur verið talsvert gagnrýnd af stærri félögum sem hafa mörg hver lýst því yfir að þau hafi lítinn áhuga á að taka þátt.
„Við erum lið í minni kantinum sem er ekki mjög þekkt. Það eru fáir leikmenn sem hafa spilað í Evrópukeppni og fyrir okkur var þetta gríðarlega skemmtilegt. Við tókum þetta af fullri alvöru. Ég skil alveg að fyrir þessi stærri lið sem hafa fengið smjörþefinn af Meistaradeildinni að þetta sé ekki alveg það skemmtilegasta en mér finnst þessi keppni alveg eiga rétt á sér," segir Ólafur.
„Auðvitað gefur þetta liðunum og áhorfendum auka. Það er alltaf gaman að reyna sig gegn liðum í öðrum löndum. Hversdagsleikinn hverfur aðeins og þú færð annað sjónarhorn á fótboltann. Við höfðum gaman að þessu og vorum svekktir að hafa ekki nýtt tækifærið og komist áfram."
Ólafi líkar lífið í Belgíu vel. „Ég á tvö og hálft ár eftir af samningi hérna. Eins og ég sagði er maður með stóra fjölskyldu og þarf að passa upp á að þau mál séu öll í góðu líka. Eins og staðan er núna erum við mjög ánægð og meðan liðinu gengur vel þá kvartar maður ekki."
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir