Klukkan er 05:30 í bænum Breman Asikuma í Afríkuríkinu Gana. Haninn galar, náttmyrkrið hopar og Emmanuel Nkrumah er kominn á fætur. Emmanuel er 15 ára gamall, þriðji yngstur af átta börnum þeirra Mabel Teteh og Emmanuel Afenin Nkrumah sem lést árið 2005. Mabel sér börnum sínum farborða með því að útbúa og selja soðinn maís, „kenkey” eins og það er kallað, á götum Asikuma. Hvert stykki selur hún á sem samsvarar 17 kr. svo innkoman er ekki mikil. Næst elsti bróðirinn, Akakpo, starfar sem kennari og styður eins og hann getur við bakið á yngri systkinum sínum.
Emmanuel, eða Ema eins og hann er oftast kallaður, byrjar daginn á að sækja vatn í nálægan brunn og ef engin önnur verkefni liggja fyrir undirbýr hann sig fyrir skóladaginn. Ég er gestkomandi í Breman Asikuma. Fyrir þremur árum kynntist ég Ema og hans fólki þegar ég starfaði í nokkra mánuði í Gana og hef fylgst með úr fjarlægð síðan þá.
Þegar hér er komið við sögu er ennþá jólafrí og því enginn skóli. Í tilefni af því er morgunæfing hjá fótboltaliðinu sem Ema spilar með: Breman Professionals. Æfingin á að hefjast kl. 06:30 og menn tínast hægt og rólega upp á völl. Þjálfararnir eru þó ekki að stressa sig mikið á tímasetningunni og strákarnir mæta einn af öðrum og byrja að klæða sig í fótboltasokka og takkaskó. Geitahjörð töltir yfir völlinn í hægum takti sem er einmitt svo einkennandi fyrir hinn afríska lífsstíl. Æfingin hefst loksins, seint og um síðir, en á fullkomlega eðlilegum „afrískum tíma”.
Okkar maður fer fremstur í flokki, klæddur í upplitaða enska landsliðstreyju með „Rooney 9” á bakinu og snjáða takkaskó. Þegar betur er að gáð eru báðir skórnir götóttir og takkarnir nánast eyddir að fullu. Eftir upphitun byrjar hasarinn: Reitarbolti, þrír á móti einum, þar sem aðeins 16 leikmenn taka þátt; þeir yngstu sitja hjá og fylgjast með. Boltarnir eru jú aðeins fjórir!
Fljótlega fer hópurinn og sækir á mark þar sem einn varnarmaður verst tveimur sóknarmönnum. Allir vilja skora en reyndar þarf að sækja boltann talsverðan spöl eftir hvert skot þar sem ekkert net er á milli bambusstanganna sem mynda markið. Loks er spilað og hart tekist á. Ema leikur í fremstu víglínu og lætur til sín taka. Eftir nokkrar mínútur er hann tæklaður harkalega og lendir illa á vellinum sem er í raun ekkert nema þurr möl með einstaka grasblettum. Það blæðir úr hnénu á Ema sem klárar þó æfinguna af krafti.
Það er aftur æfing seinni partinn þar sem íslenski þjálfarinn á svæðinu er fenginn til að miðla af visku sinni. Nú eru fleiri mættir og eru leikmennirnir á aldrinum 11-17 ára. Emmanuel er mættur fyrstur og heldur bolta á lofti með yngsta, en jafnframt flinkasta, leikmanninum á svæðinu. Hann er kallaður Carlos og lítur mjög upp til Ema. Æfingin hefst og eftir tæpan klukkutíma tilkynnir hinn hámenntaði og fróði íslenski þjálfari að nú skuli þeir sem æfðu í morgun slaka á og teygja en aðrir fari að spila. „Er maðurinn að grínast?” Þessi spurning skein úr augum drengjanna sem höfðu aldrei heyrt aðra eins vitleysu. „Hvíla sig og teygja??”. Eftir bollaleggingar með heimamönnum var ákveðið að allir fengju að spila og skein brosið úr hverju andliti það sem eftir lifði æfingar. Hin íslenska þekking á íþróttinni hafði verið borin ofurliði af leikgleði afrísku strákanna.
Það er einmitt það fyrsta sem þú tekur eftir þegar þú hittir Emmanuel Nkrumah - breitt bros. Ema þráir ekkert heitar en að verða atvinnumaður í fótbolta. Hann langar einn daginn að spila í Evrópu og eiga þannig möguleika á að sjá fyrir fjölskyldunni. Hann veit hvað þarf til og þrátt fyrir ömurlegan útbúnað og vondar vallaraðstæður æfir hann sig við hvert tækifæri og hefur alltaf ótrúlega gaman af. Fótboltinn er hans líf og yndi. Á vellinum gleymir hann stað og stund og nýtur sín til fulls.
Ef þig, lesandi góður, langar að ná langt í fótbolta þá hvet ég þig til að halda í gleðina sem þú vafalaust fannst fyrir þegar þú byrjaðir að æfa. Þegar þú fórst út á völl, hermdir eftir uppáhaldsleikmanninum þínum og lýstir jafnvel af innlifun því sem gerðist að hætti íþróttafréttamanna.
Auðvitað þarf ótalmargt fleira en gleði til að komast á toppinn en passaðu þig bara á að týna henni aldrei.
Magnús Örn Helgason, yfirþjálfari yngri flokka hjá knattspyrnudeild Gróttu
Athugasemdir