Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   sun 19. janúar 2025 16:05
Brynjar Ingi Erluson
England: Onana með skelfileg mistök í tapi Man Utd - Fyrsti sigur Everton í endurkomu Moyes
André Onana gerði hræðileg mistök í þriðja markinu
André Onana gerði hræðileg mistök í þriðja markinu
Mynd: Getty Images
Georginio Rutter skoraði þriðja markið eftir mistök Onana
Georginio Rutter skoraði þriðja markið eftir mistök Onana
Mynd: Getty Images
Chris Wood heldur áfram að raða inn mörkum
Chris Wood heldur áfram að raða inn mörkum
Mynd: Getty Images
Everton vann sinn fyrsta leik undir David Moyes síðan hann tók aftur við liðinu
Everton vann sinn fyrsta leik undir David Moyes síðan hann tók aftur við liðinu
Mynd: Getty Images
Brighton, Everton og Nottingham Forest unnu öll leiki sína í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en sigur Everton var sá fyrsti síðan David Moyes tók aftur við liðinu.

Moyes boðaði endurkomu sína fyrr í þessum mánuði og var að stýra liðinu í annað sinn í dag.

Stuðningsmenn fengu frábæra frammistöðu frá þeim bláu sem tóku forystuna á 13. mínútu er Dominic Calvert-Lewin fékk sendingu inn á teiginn. Hann snéri tvisvar á varnarmenn Tottenham áður en hann skoraði. Stórkostlegar hreyfingar og afgreiðsla hjá framherjanum.

Iliman Ndiaye bætti við öðru þegar hálftími var liðinn. Idrissa Gana Gueye, sem lagði upp markið fyrir Calvert-Lewin, kom boltanum á Ndiaye sem keyrði upp allan völlinn, tók nokkur skæri áður en hann þrumaði boltanum í netið. Virkaði allt of auðvelt fyrir heimamenn sem voru ekki hættir.

Seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom þriðja markið eftir að Calvert-Lewin stýrði skalla í átt að marki sem var hreinsað í Archie Gray og í netið.

Frammistaða Tottenham var voðalega döpur en liðið náði þó að minnka muninn þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka er Dejan Kulusevski fékk boltann í teignum og skoraði með stórkostlegri vippu efst í vinstra hornið. Líklega flottasta mark mánaðarins.

Tottenham hélt áfram að herja á Everton og kom annað markið í uppbótartíma. Varamaðurinn Richarlison skoraði gegn sínum gömlu félögum. Hann lúrði á fjær eftir stórkostlega sendingu Mikey Moore.

Hann fagnaði auðvitað ekki markinu og gat það heldur ekki þar sem hann og Jordan Pickford skullu saman í teignum og lá hann því eftir í grasinu.

Ágætis endurkoma en ekki nóg hjá Tottenham gegn lærisveinum Moyes. Lokatölur 3-2, Everton í vil.

Everton er í 16. sæti með 20 stig en Tottenham í 15. sæti með 24 stig.

Nottingham Forest vann þá nýliða Southampton, 3-2. Heimamenn í Forest gerðu eins og Everton með því að afgreiða leikinn í fyrri hálfleik.

Elliot Anderson skoraði með flottu skoti fyrir utan teig á 11. mínútu eftir undirbúning Morgan Gibbs-White og bætti Callum Hudson-Odoi við öðru sautján mínútum síðar er Chris Wood vann boltann af varnarmanni Southampton, lagði hann á Hudson-Odoi sem skaut hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið.

Wood var síðan sjálfur á ferðinni nokkrum mínútum síðar er hann stangaði fyrirgjöf Ola Aina í vinstra hornið.

Jan Bednarek náði að klóra í bakkann fyrir Southampton á 60. mínútu og þá gerði Paul Onuachi annað marki á annarri mínútu í uppbótartíma en það dugði ekki til og 3-2 sigur Forest niðurstaðan.

Forest er í 3. sæti með 44 stig, jafnmörg og Arsenal, en Southampton á botninum með 6 stig og útlit fyrir að liðið verði það fyrsta til að falla niður um deild í ár.

Brighton skellti Man Utd á Old Trafford

Brighton vann frækinn 3-1 útisigur á Manchester United á Old Trafford.

United-menn voru komnir á ágætis siglingu. Mánuðurinn fór ágætlega af stað. Liðið náði í stig gegn Liverpool og henti síðan Arsenal úr leik í enska bikarnum. Amad Diallo gerði þrennu í síðasta leik í sigri á Southampton, en liðið náði ekki að fylgja því á eftir.

Brighton tók forystuna eftir tæpar fimm mínútur. Carlos Baleba átti algera konfektsendingu á bakvið Noussair Mazraoui og á Kaoru Mitoma sem slapp í gegn vinstra megin. Hann keyrði inn í teiginn og sendi boltann síðan á fjær á Yankuba Minteh sem lagði boltann í netið.

United kom til baka og með hjálp Baleba sem reif Joshua Zirkzee niður í vítateignum eftir tuttugu mínútur. Ótrúlega heimskulegt brot hjá Baleba sem fékk gult spjald fyrir.

Bruno Fernandes skoraði af öryggi af vítapunktinum og United aftur komið inn í leikinn.

Staðan var jöfn í hálfleik en í þeim síðari kom Brighton sterkara til leiks.

Joao Pedro kom boltanum í netið á 54. mínútu en markið fékk ekki að standa þar sem Jan Paul van Hecke sparkaði í Diogo Dalot í aðdragandanum.

Það breytti engu máli fyrir Brighton sem skoraði annað markið sex mínútum síðar. Minteh þakkaði fyrir stoðsendinguna fyrr í leiknum með því að senda boltann á fjær á Mitoma sem náði að stökkva með löppina á undan sér og pota boltanum inn fyrir línuna.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok gerði André Onana, markvörður Man Utd, skelfileg mistök. Fyrirgjöfin kom frá hægri og virkaði heldur þægileg fyrir Onana. Hann hins vegar missti boltann út í teiginn og á Georginio Rutter sem var ekki í vandræðum með að skora af stuttu færi.

Skelfileg mistök sem gerðu út um leikinn. Sigurinn kemur Brighton upp í 9. sæti með 34 stig en United er áfram í 13. sæti með aðeins 26 stig.

Everton 3 - 2 Tottenham
1-0 Dominic Calvert-Lewin ('13 )
2-0 Iliman Ndiaye ('30 )
3-0 Archie Gray ('45 , sjálfsmark)
3-1 Dejan Kulusevski ('77 )
3-2 Richarlison ('90 )

Manchester Utd 1 - 3 Brighton
0-1 Yankuba Minteh ('5 )
1-1 Bruno Fernandes ('23 , víti)
1-2 Kaoru Mitoma ('60 )
1-3 Georginio Rutter ('76 )

Nott. Forest 3 - 2 Southampton
1-0 Elliot Anderson ('11 )
2-0 Callum Hudson-Odoi ('28 )
3-0 Chris Wood ('41 )
3-1 Jan Bednarek ('60 )
3-2 Paul Onuachu ('90 )
Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Liverpool 21 15 5 1 50 20 +30 50
2 Arsenal 22 12 8 2 43 21 +22 44
3 Nott. Forest 22 13 5 4 33 22 +11 44
4 Newcastle 22 11 5 6 38 26 +12 38
5 Man City 22 11 5 6 40 29 +11 38
6 Chelsea 21 10 7 4 41 26 +15 37
7 Bournemouth 22 10 7 5 36 26 +10 37
8 Aston Villa 22 10 6 6 33 34 -1 36
9 Brighton 22 8 10 4 35 30 +5 34
10 Fulham 22 8 9 5 34 30 +4 33
11 Brentford 22 8 4 10 40 39 +1 28
12 Crystal Palace 22 6 9 7 25 28 -3 27
13 Man Utd 22 7 5 10 27 32 -5 26
14 West Ham 22 7 5 10 27 43 -16 26
15 Tottenham 22 7 3 12 45 35 +10 24
16 Everton 21 4 8 9 18 28 -10 20
17 Wolves 21 4 4 13 31 48 -17 16
18 Ipswich Town 22 3 7 12 20 39 -19 16
19 Leicester 22 3 5 14 23 48 -25 14
20 Southampton 22 1 3 18 15 50 -35 6
Athugasemdir
banner
banner
banner