Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 19. mars 2023 17:45
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Risastór skellur“ að vera án Sverris - Átti að kljást við Dzeko
Icelandair
Sverrir Ingi Ingason verður ekki með í komandi landsleikjum.
Sverrir Ingi Ingason verður ekki með í komandi landsleikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Edin Dzeko í landsleik með Bosníu.
Edin Dzeko í landsleik með Bosníu.
Mynd: Getty Images
„Þetta er risastór skellur, þetta er bara áfall," sagði Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 um þau tíðindi sem bárust á föstudag að miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason verður ekki með í komandi landsleikjum.

Sverrir er einn okkar reyndasti miðvörður en vegna meiðsla getur hann ekki spilað á fimmtudagskvöld þegar Ísland hefur undankeppni EM á útileik gegn Bosníu/Hersegóvínu.

„Þetta er maðurinn sem maður sá fyrir sér að væri að fara að kljást við besta leikmann Bosníu, Edin Dzeko. Leikstíll Bosníu gengur út á að finna Dzeko í boxinu," segir Elvar.

„Það er líklegt að Daníel Leó (Grétarsson), sem er að spila í Póllandi, komi inn í miðvörðinn við hlið Harðar Björgvins (Magnússonar). Tveir örvfættir. Ef við skoðum bara hvernig Arnar Þór Viðarsson hefur verið að stilla þessu upp síðustu leiki."

„Ég væri til í að sjá Guðlaug Victor (Pálsson) koma inn í hafsentinn. Ef hann fer þangað er spurningin hver verður á miðjunni," segir Elvar.

Í þættinum er talað um Aron Elís Þrándarson, Þóri Jóhann Helgason og Arnór Ingva Traustason sem möguleika. Einnig er rætt um hvort Birkir Bjarnason, sem ekki var valinn í hópinn hefði nýst í þessari stöðu sem komin er upp.

Á fimmtudaginn, 23. mars, hefur Ísland leik í undankeppni EM þegar leikið verður gegn Bosníu/Hersegóvínu í borginni Zenica. Næsta sunnudag er síðan útileikur gegn Liechtenstein.

Auk þessara liða eru Portúgal, Slóvakía og Lúxemborg í riðlinum en tvö efstu liðin tryggja sér sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi 2024. Möguleikar Íslands eru því nokkuð góðir en fastlega má gera ráð fyrir því að Portúgal vinni riðilinn en hart verði barist um annað sætið.
Útvarpsþátturinn - Albertsmálið, hópurinn og KA
Athugasemdir
banner
banner