Daníel Leó Grétarsson er kominn aftur á fótboltavöllinn eftir nokkurra mánaða fjarveru frá fótbolta eftir að hafa farið í aðgerð á öxl.
Hann var í liði Sönderjyske sem tapaði 1-0 í æfingaleik gegn Odense Boldklub í dag. Þar spilaði hann 45 mínútur án vandræða.
Þetta er fyrsti leikurinn sem Daníel Leó spilar síðan 1. desember, þegar hann var í liði Sönderjyske sem lagði Lyngby að velli í síðasta leik fyrir vetrarfrí í danska boltanum.
Daníel gæti reynst afar mikilvægur Sönderjyske á lokakafla tímabilsins þar sem liðið er í fallbaráttu í efstu deild danska boltans.
„Það er gott að komast aftur á völlinn eftir langa fjarveru. Það var gott að spila í alvöru fótboltaleik frekar en að vera bara eitthvað að fíflast, þetta var mjög góð tilfinning," sagði Daníel Leó eftir tapið í æfingaleiknum.
„Bataferlið hefur gengið voðalega hægt síðan ég fór í aðgerð á öxl í vetur. Ég hef verið í endurhæfingu síðustu tvo mánuði til að byggja líkamann aftur upp eftir þessa aðgerð.
„Það var stórt skref að spila 45 mínútur í dag. Mér leið vel inni á vellinum, ég notaði líkamann vel.
„Markmiðið var að snúa aftur á völlinn fyrir lokahnykkinn og mér er að takast það."
Sönderjyske er búið að tapa fjórum og gera eitt jafntefli í dönsku deildinni í fjarveru Daníels. Hann er mikilvægur hlekkur í varnarlínu liðsins.
Athugasemdir