Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   fös 19. apríl 2024 23:20
Ívan Guðjón Baldursson
Nacho ætlar að yfirgefa Real í sumar - Ungur liðsfélagi Hákonar arftakinn
Mynd: Getty Images
Spænski varnarjaxlinn Nacho Fernández er 34 ára gamall og mun ekki spila áfram með Real Madrid á næstu leiktíð, eftir að hafa leikið fyrir félagið alla sína tíð.

Nacho, sem á 24 landsleiki að baki fyrir Spán, hefur í heildina tekið þátt í 355 keppnisleikjum klæddur treyju Real Madrid og hefur verið mikilvægur liðsmaður í gegnum árin og þá sérstaklega nýlega undir stjórn Carlo Ancelotti.

Samningur Nacho við Real rennur út í sumar og getur Ancelotti ekki gefið leikmanninum loforð um mikinn spiltíma.

Það eru ýmis félög sem hafa áhuga á Nacho en varnarmaðurinn ætlar að bíða með að taka ákvörðun um framtíðina þar til yfirstandandi tímabili lýkur.

Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá þessu og segir að verðandi Ítalíumeistarar Inter hafi mikinn áhuga á að fá Nacho til liðs við sig á frjálsri sölu.

Það gæti þó reynst erfitt vegna þess að Nacho er einnig talinn vera með samningstilboð á borðinu frá sádi-arabísku deildinni, sem getur vafalaust boðið talsvert betri launakjör heldur en Inter.

Real Madrid ætlar að krækja í Leny Yoro til að fylla í skarðið í varnarlínunni, en Yoro er ekki nema 18 ára gamall og hefur verið að gera magnaða hluti í hjarta varnarinnar hjá Lille.

Yoro er með sæti í byrjunarliði Lille þrátt fyrir ungan aldur og hefur einnig vakið mikinn áhuga frá PSG.

Yoro á þó aðeins eitt ár eftir af samningi við Lille og vonast franska félagið til að semja aftur við miðvörðinn áður en hann verður seldur.
Athugasemdir
banner
banner
banner