Möguleiki er á því að Darwin Nunez yfirgefi Liverpool eftir tímabilið en enskir miðlar greina frá þessum tíðindum.
Nunez er 25 ára gamall og á þriðja tímabili sínu með Liverpool, en hann hefur ekki alveg náð að lifa upp til þeirra væntinga sem gerðar voru til hans.
Framherjinn er gæddur mörgum kostum og vantar ekki upp á ástríðuna, en færanýtingin er það neikvæða við leik hans og oft kostað félagið.
Nunez er ekki fastamaður í byrjunarliðinu og var hann ekki einu sinni í hópnum síðustu helgi er Liverpool mætti West Ham. Félagið sagði hann vera glíma við veikindi á meðan enskir miðlar fullyrtu að hann hafði gengið út af æfingu eftir rifrildi við meðlim úr þjálfarateyminu.
Arne Slot, stjóri Liverpool, svaraði spurningum um fjarveru Nunez, en svörin voru heldur dularfull.
„Hann var ekki sjálfum sér líkur og fór því inn og daginn eftir gat hann ekki verið með liðinu. Það er rétt að það geti þýtt margt, en það var þannig sem honum leið,“ sagði Slot.
Hann neitar því þó að Nunez hafi lent upp á kant við einhvern úr þjálfarateyminu en gaf engin frekari svör á fjarveru hans.
„Nei, hann átti ekki í orðaskaki við einhvern úr þjálfarateyminu. Honum fannst hann bara ekki vera sjálfum sér líkur,“ sagði Slot.
Nunez var keyptur frá Benfica árið 2022 fyrir 85 milljónir punda hann hefur aðeins skorað 40 mörk í 138 leikjum sínum. Félög í Sádi-Arabíu hafa sýnt því áhuga á að fá Nunez undanfarna mánuði en þau gætu þurft að punga út svipaðri upphæð og Liverpool greiddi fyrir úrúgvæska sóknarmanninn.
Athugasemdir