Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 19. maí 2021 16:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Blikar hataðasta liðið - „Ástæða fyrir hatri er öfund, fyrst og fremst"
Blikar hafa verið í vandræðum í upphafi móts.
Blikar hafa verið í vandræðum í upphafi móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur ekki gengið vel hjá Breiðablik í upphafi Pepsi Max-deildarinnar. Liðið er með fjögur stig eftir fjóra leiki en margir spáðu þeim Íslandsmeistaratitlinum fyrir mót.

Þetta finnst mörgum skemmtilegt eins og farið var yfir í Innkastinu síðasta mánudag.

„Það er búið að herja á Óskar Hrafn og það er þórðargleði hjá mörgum yfir því hvernig Breiðablik fer af stað," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Það hlakkar í fleirum að illa gangi hjá Blikum, frekar en ef þetta væri Valur. Blikar eru orðnir hataðasta liðið í bransanum. Það er ástæða fyrir því, þetta er gríðarlega stórt félag. Ástæða fyrir hatri er öfund, fyrst og fremst. Bjargir Breiðabliks eru það miklar að hin félögin og fólk sem fylgist með boltanum hata þetta," sagði Gunnar Sigurðarson.

„Fyndið að KR var hataðasta félag landsins fyrir nokkrum árum síðan. Bæði þessi lið eru með fjögur stig en það sést munur á umræðunni um liðin," sagði Elvar.

„Hann er gígantískur," sagði Gunnar Birgisson og telur að það hafi eitthvað að gera með þjálfarana og fótboltann sem þeir vilja spila.

„Það eru töluvert fleiri að fetta fingri út í Breiðablik og hvað þeir eru að gera. Það koma inn þjálfarar sem vilja spila geggjaðan fótbolta, eitthvað sem menn hafa ekki vanist áður. Núna fara menn að kalla eftir því að Breiðablik spili 'eðlilegan' fótbolta. Hvað er eðlilegur fótbolti? Er það þá á Íslandi að setja boltann í fremstu línu, að dæla honum upp á senter sem tekur hann niður og spilar til baka. Að verjast 4-5-1, tvær þéttar línur rétt fyrir framan teiginn, fá færi á sér, spila lítinn sem engan sóknarbolta. Er það ekki íslenska leiðin?" sagði Gunnar.

„Mér finnst skemmtileg þróun á íslensku deildinni að liðin eru farin að vera í ríkari mæli með sín sérkenni. Það er ekki mörg ár síðan að allir voru í 4-3-3. Svo kom Chelsea og vann ensku úrvalsdeildina með 3-4-3. Þá fóru öll liðin að spila 3-4-3. Núna eru öll liðin með sérkenni og ég fýla það," sagði Elvar Geir.

„Þetta verður að gerast því við erum ekki að taka nægilega miklum framförum á sviði knattspyrnunnar. Við erum að búa til leikmenn, það vantar aldrei. Leikmenn sem ná að fara út í atvinnumennsku og spila þar. En við þurfum líka að búa til einhvern fótbolta. Við megum ekki gleyma því að við erum að missa Evrópusæti sem verður erfitt að ná í aftur, mjög erfitt. Eitthvað þurfum við að gera," sagði Gunnar.

Gunnar telur að það sé stutt í að Blikar hrökkvi í gangi en hægt er að hlusta á allan þáttinn hér að neðan.
Innkastið - Stóru málin í Pepsi Max með Gunna samloku
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner