banner
   þri 19. október 2021 18:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Stórsigur hjá Man City á útivelli
Mynd: Getty Images
Manchester City og Sporting Lissabon unnu stórsigra í fyrstu tveimur leikjum dagsins í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Man City heimsótti Club Brugge í Belgíu. Fyrir nokkrum vikum síðan spilaði Club Brugge við PSG í Belgíu og frammistaða þeirra þar var gífurlega góð. Belgíska félagið náði í stig gegn Lionel Messi og félögum.

Í kvöld náði liðið ekki upp eins góðri frammistöðu. Joao Cancelo og Riyad Mahrez skoruðu fyrir leikhlé. Kyle Walker gerði svo út um leikinn með marki á 53. mínútu.

Cole Palmer kom inn af bekknum og skoraði fjórða markið áður en Hans Vanaken minnkaði muninn fyrir heimamenn. Áður en flautað var af batt Mahrez lokahnútinn á þennan sigur; lokatölur 5-1 fyrir City, sem er með sex stig í riðlinum.

PSG og Club Brugge eru með fjögur stig, og RB Leipzig er með eitt stig. PSG og RB Leipzig mætast á eftir.

Þá vann Sporting Lissabon frábæran útisigur gegn Besiktas, 1-4. Sebastian Coates, fyrrum varnarmaður Liverpool, skoraði tvennu fyrir Sporting í leiknum.

Sá leikur var í C-riðli, en bæði þessi lið voru án stiga fyrir leikinn. Núna er Sporting með þrjú stig.

Club Brugge 1 - 5 Manchester City
0-1 Joao Cancelo ('30 )
0-2 Riyad Mahrez ('43 , víti)
0-3 Kyle Walker ('53 )
0-4 Cole Palmer ('67 )
1-4 Hans Vanaken ('81 )
1-5 Riyad Mahrez ('84 )

Besiktas 1 - 4 Sporting
0-1 Sebastian Coates ('15 )
1-1 Cyle Larin ('24 )
1-2 Sebastian Coates ('27 )
1-3 Pablo Sarabia ('44 , víti)
1-4 Paulinho ('89 )
Athugasemdir
banner
banner
banner