Gregg Ryder, þjálfari Þróttar í Inkasso-deild karla, var allt annað en sáttur með dómgæsluna í 2-1 sigri liðsins á Þór í 3. umferð deildarinnar í dag.
Þróttur vann 2-1 með sigurmarkið undir lokin er Hlynur Hauksson skoraði gullfallegt mark en þrátt fyrir sigurinn var Ryder ósáttur við margt.
Ryder hefur verið ósáttur við dómgæsluna í fyrstu þremur leikjunum en liðið missti mann af velli í tapinu gegn Haukum auk þess sem ÍR fékk víti gegn liðinu í síðustu umferð.
Ryder vildi meina að Þróttur hafi átt að fá vítaspyrnu í dag og þá var hann sendur upp í stúku fyrir ósæmilega hegðun í garð aðstoðardómara leiksins.
„Þetta var öflugur sigur. Við vorum óheppnir með nokkrar ákvarðanir í leiknum og meiðsli, þannig þetta var frábært," sagði Ryder við fjölmiðla.
Emil Atlason fór meiddur af velli á 20. mínútu en Ryder heldur að þetta séu krossbandsslit. Emil gæti því verið frá í einhvern tíma en það á eftir að skoða hann betur. Emil var fluttur með sjúkrabíl úr Laugardalnum.
„Ég held að þetta sé krossbandið hjá Emil en við eigum eftir að skoða þetta aðeins. Emil brotnaði í fyrra á Samsung-vellinum en núna er það krossbandið. Við eigum bara eftir að sjá hversu lengi hann verður frá."
Ryder eins og áður segir var ósáttur við dómgæsluna og segir mikinn mun vera á Pepsi-deildinni og Inkasso-deildinni.
„Við áttum að fá vítaspyrnu og undir lok leiksins bað dómarinn mig um að yfirgefa völlinn fyrir ósæmilega hegðun í garð aðstoðardómarans. Þetta er bara röng ákvörðun, það var maður sendur útaf í fyrsta leiknum og svo víti gegn ÍR. Það þarf eitthvað að skoða þetta, því dómgæslan þarf að batna. Það er þvílíkur munur á Pepsi-deildinni og 1. deildinni hvað dómgæslu varðar."
„Ég var sendur upp í stúku fyrir ósæmilega hegðun. Aðstoðardómarinn kemur hratt upp að mér og ég sé ekki hvernig það sé sæmileg hegðun hjá honum. Þetta er ekki bann en dómarinn bað mig um að fara upp í stúku."
Þróttarar sýndu mikinn karakter en liðið lenti undir þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik og kom þá til baka í þeim síðari og gerði tvö mörk. Ryder var ánægður með það.
„Við misstum Emil af velli, það virtust vera hræðileg meiðsli og það tekur einbeitinguna og karakterinn. Maður þarf svo mikinn karakter að koma til baka eftir þetta aukaspyrnumark, ég get ekki hrósað þeim nóg. Þeir voru ótrúlegir."
„Það eru þessir litlu hlutir sem komu gegn okkur. Aron fékk slæman krampa en strákarnir sýndu karakter og ég er ánægður með viðmótið sem þeir gáfu frá sér," sagði Ryder í lokin.
Athugasemdir