Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 20. júlí 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Solskjær glaður með Martial - „Nýr Anthony"
Anthony Martial.
Anthony Martial.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, er ánægður með vinnuframlagið hjá Frakkanum Anthony Martial á undirbúningstímabilinu.

Martial hefur að mestu leyti leikið sem kantmaður á tíma sínum hjá United - fyrir utan fyrsta tímabilið sitt hjá félaginu. Þá lék hann sem sóknarmaður og var markahæsti leikmaður liðsins með 11 mörk.

Á undirbúningstímabilinu hefur hann spilað sem sóknarmaður hjá Solskjær.

„Hann getur orðið sóknarmaður í heimsklassa," sagði Solskjær um Martial.

„Viðhorf hans hefur verið algjörlega frábært á undirbúningstímabilinu. Það hafa komið upp augnablik þar sem þú hugsar með þér að þarna sé 'nýr' Anthony að því leyti hvernig hann vinnur fyrir liðið. Hann hefur alltaf haft gæðin og hæfileikana, hann skorar mörk, og núna er vinnuframlag hans að batna."

„Ég býst við því að hann og Marcus Rashford, þeir tveir, verði betri en á síðasta tímabili."

Í maí var talað um það að Solskjær væri ósáttur við viðhorf Martial. Solskjær er ánægður núna.

Martial er 23 ára og hefur hann leikið með Manchester United frá því hann kom til félagsins frá Mónakó sumarið 2015.

Líkur eru á því að Romelu Lukaku sé á förum frá Man Utd í sumar og ekki hefur verið mikið talað um það að Solskjær muni bæta við sóknarmanni. Því er spurning hvort hann ætli að notast við Martial, Rashford og hinn unga Mason Greenwood í sóknarmannsstöðunni.
Athugasemdir
banner