sun 20. september 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúgbí tækling breytti leiknum - Eiður og Hasseilbaink lítt hrifnir
Rúgbí tækling hjá Christensen.
Rúgbí tækling hjá Christensen.
Mynd: Getty Images
Tómas Þór Þórðarson fór yfir stórleik helgarinnar í enska boltanum, leik Chelsea og Liverpool, með tveimur fyrrum framherjum Chelsea á Síminn Sport í dag.

Eiður Smári Guðjohnsen var í settinu og fyrrum liðsfélagi hans hjá Chelsea, Jimmy Floyd Hasselbaink, var á línunni.

„Framan af var nokkuð mikið jafnræði í þessu," sagði Eiður Smári. „Chelsea sótti ágætlega vitandi það að þeir eru að spila á móti meisturunum sem eru alltaf hættulegir, sama hvort þeir eru með boltann eða ekki. Þeir sköpuðu sér eitt og eitt hálffæri, og ellefu á móti ellefu var ekki mikill munur á liðunum - þó að það megi segja að Liverpool hafi verið ögn sterkari í fyrri hálfleik."

Leikurinn breyttist þegar Andreas Christensen fékk að líta rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks fyrir brot á Sadio Mane. „Hárréttur dómur," sagði Eiður sem var ekki hrifinn af varnarleik Chelsea, sérstaklega í þessu atviki.

„Þetta rauða spjald kemur algerlega út frá því að bilið á milli Zouma og Christiansen er alltof mikið. Það er einn bolti úr vörninni, Henderson fær að taka við boltanum úr vörninni, bolti í gegnum miðjuna og rautt spjald."

„Það er engin pressa á boltamanni í upphafi og svo er bilið á milli hafsenta Chelsea óboðlegt. Þegar þú ert að spila á móti Liverpool sem eru með þetta fljóta leikmenn og ég tala nú ekki um Mane, þá lendirðu í svona vandræðum."

„Ég verð að segja að þetta hafi verið mjög lélegur varnarleikur hjá Christensen," sagði Hasselbaink. „Þegar þú veist sem varnarmaður að þú ert ekki fljótari en sóknarmaðurinn þá verðurðu að passa að hann hlaupi ekki frá þér, þú verður að taka á þig gula spjaldið á miðlínunni eða gefa þér pláss svo þú lendir ekki fyrir aftan hann."

„Þetta eru mikil mistök hjá honum," sagði Hasselbaink, en einnig var rætt um mistökin sem markvörðurinn Kepa Arrizabalaga gerði.

Hollendingurinn telur að Chelsea þurfi miðvörð og markvörð en umfjöllunina má sjá í heild sinni hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner