Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   mið 20. september 2023 19:08
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Orri Steinn kom inn á en var síðan skipt af velli - Bellingham hetjan í Madríd
Jude Bellingham skoraði sigurmark Real Madrid
Jude Bellingham skoraði sigurmark Real Madrid
Mynd: Getty Images
Orri Steinn kom inn á en var skipt af velli eftir að liðsfélagi hans fékk að líta rauða spjaldið
Orri Steinn kom inn á en var skipt af velli eftir að liðsfélagi hans fékk að líta rauða spjaldið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jude Bellingham var hetja Real Madrid sem lagði Union Berlín að velli, 1-0, í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld, en sigurmark hans kom seint í uppbótartíma. Það var þá stutt gaman hjá Orra Steini Óskarssyni, sem kom inn af bekknum, en var síðan skipt af velli er liðsfélagi hans fékk að líta rauða spjaldið í 2-2 jafntefli FCK gegn Galatasaray.

Madrídingar áttu í erfiðleikum með að finna lausnir gegn þýska liðinu, sem var að spila í fyrsta sinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Joselu átti besta færi heimamanna í fyrri hálfleiknum er hann stangaði boltann rétt framhjá markinu á 6. mínútu.

Rodrygo var nálægt því að taka forystuna fyrir Real Madrid. Hann átti fyrst skot sem Frederik Ronnow varði í marki Union. Lucas Vazquez tók frákastið, kom boltanum aftur á Rodrygo, sem setti boltann í stöngina.

Þegar hálftími var eftir af leiknum átti Joselu skalla í stöng eftir fyrirgjöf Rodrygo, en inn vildi boltinn ekki.

Madrídingar héldu áfram að pressa á Union og á endanum kom markið og auðvitað var það enski miðjumaðurinn Jude Bellingham sem gerði það. Skot Federico Valverde var varið af Ronnow og fyrir Bellingham sem tryggði sigurinn. Þolinmæði þrautir vinnur allra og fyrsti sigur Madrídinga kominn í hús.

Elias Jelert skúrkurinn sem kostaði FCK

Galatasaray og FCK gerðu dramatískt 2-2 jafntefli í Istanbúl, en spilað var í A-riðli.

Íslenski landsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson byrjaði á tréverkinu hjá FCK.

Mohamed Elyounoussi kom FCK á bragðið á 35. mínútu og gerði Diogo Goncalves annað mark danska liðsins á 58. mínútu og kom þannig liðinu í frábæra stöðu.

Orri Steinn kom við sögu á 70. mínútu, en hann fékk ekki langan tíma til að spreyta sig því Elias Jelert, liðsfélagi hans, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 73. mínútu. Það þýddi það að Jacob Neestrup, þjálfari liðsins, þurfti að gera taktískar breytingar og bitnaði það á Orra, sem fór af velli þremur mínútum síðar.

Hann hefði betur sleppt því. Galatasaray skoraði tvö mörk á tveimur mínútum í gegnum þá Sacha Boey og Tete, sem sóttu mikilvægt stig fyrir tyrkneska liðið.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Galatasaray 2 - 2 FC Kobenhavn
0-1 Mohamed Elyounoussi ('35 )
0-2 Diogo Goncalves ('58 )
1-2 Sacha Boey ('86 )
2-2 Tete ('88 )
Rautt spjald: Elias Jelert, FC Kobenhavn ('73)

C-riðill:

Real Madrid 1 - 0 Union Berlin
1-0 Jude Bellingham ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner