Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
banner
   sun 20. október 2024 17:22
Elvar Geir Magnússon
Heimild: 433.is 
FIFA setti Viðar Örn í bann vegna skuldar í Búlgaríu
Viðar er kominn í sex mánaða bann frá FIFA.
Viðar er kominn í sex mánaða bann frá FIFA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson var ekki með KA í gær en hann er kominn í tímabundið keppnisbann frá FIFA, alþjóða fótboltasambandinu, vegna skuldar við búlgarska félagið CSKA 1948 Sofia.

Haukur Hinriksson yfirlögfræðingur KSÍ staðfestir þetta við 433.is.

Viðar er kominn í sex mánaða bann frá öllum keppnum innan FIFA en Viðar ku hafa ekki staðið við ákveðnar skyldur við starfslok Viðars hjá CSKA.

Bannið fellur úr gildi ef Viðar stendur við sínar greiðslur en borgi hann ekki upphæðina á þessum sex mánuðum er FIFA með úrræði til að dæma hann í lengra bann.

Viðar, sem er 34 ára, gekk í raðir KA fyrir tímabilið en eftir stormasama og erfiða byrjun fór hann að finna sig betur og hjálpaði liðinu að vinna bikarmeistaratitilinn. Þetta mál hans og CSKA tengjast KA ekki á nokkurn hátt.

Uppfærsla: Viðar segir við Fótbolta.net hafa verið grunlaus í þessu máli og það komið honum á óvart að úrskurðað hafi verið í því á þessum tímapunkti. Málið verði leyst.
Athugasemdir
banner
banner