Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 20. nóvember 2021 21:31
Brynjar Ingi Erluson
Elías Már þakkaði traustið og skoraði - Rúnar Már á skotskónum
Elías Már skoraði fyrir Nimes
Elías Már skoraði fyrir Nimes
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már kom Cluj á bragðið
Rúnar Már kom Cluj á bragðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Már Ómarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir franska B-deildarfélagið Nimes síðan í ágúst er liðið vann 2-1 sigur á Quevilly-Rouen í kvöld.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur þurft að byrja á bekknum í síðustu fjórum leikjum liðsins en fékk tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld og tókst heldur betur að nýta það.

Hann skoraði á 27. mínútu og kom liðinu í 1-0. Liðið vann 2-1 sigur og var honum skipt af velli á 82. mínútu. Þetta var annað mark hans í deildinni á tímabilinu en Nimes er í 11. sæti með 20 stig.

Albert Guðmundsson var þá í byrjunarliði AZ Alkmaar sem gerði 1-1 jafntefli við NEC Nijmegen. Albert fór af velli á 64. mínútu. AZ er í 11. sæti með 16 stig.

Rúnar Már Sigurjónsson gerði fyrra mark Cluj í 2-0 sigri á Craiova í rúmensku deildinni. Rúnar hefur verið að stíga upp úr meiðslum en hann kom inná sem varamaður í hálfleik og kom svo Cluj yfir á 65. mínútu leiksins. Cluj er á toppnum með 42 stig eftir sextán leiki.

Guðlaugur Victor fór af velli í hálfleik

Miðjumaðurinn knái, Guðlaugur Victor Pálsson, byrjaði sem djúpur miðjumaður hjá Schalke í 1-1 jafnteflinu gegn Werder Bremen í þýsku B-deildinni.

Hann bjargaði á línu í leiknum áður en honum var skipt af velli í hálfleik. Bremen jafnaði með marki úr vítaspyrnu þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Schalke er í 7. sæti með 23 stig.

Ari Leifsson spilaði allan leikinn er Strömsgodset tapaði fyrir Mjöndalen 2-1. Valdimar Þór Ingimundarson sat allan tímann á varamannabekknum en Strömsgodset er í 10. sæti með 34 stig.

Patrik Sigurður Gunnarsson og Samúel Kári Friðjónsson spiluðu þá allan tímann er Viking gerði 1-1 jafntefli við Haugesund. Viking þurfti á sigri að halda til að eiga einhvern möguleika á að vera í toppbaráttunni en liðið er nú með 48 stig í 3. sæti þegar liðið á þrjá leiki eftir.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn af bekknum á 77. mínútu er varalið Real Madrid vann Sabadell, 3-0.

Guðný Árnadóttir var eins og vanalega í liði AC Milan sem Cittadella, 2-0, í ítalska bikarnum. Þetta var fyrsti leikur Milan í bikarnum þetta tímabilið.

Jökull Andrésson stóð þá allan tímann í markinu hjá Morecambe í 2-1 sigri liðsins á Fleetwood í ensku C-deildinni. Morecambe er í 18. sæti deildarinnar með 18 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner