Í samtali við Fótbolta.net í sumar sagði Birgir Örn Birgisson, rekstrastjóri fótboltadeildarinnar, að Fjölnir hefði einungis full afnot af þessum eina velli og að félagið leigði Egilshöllina á sömu forsendum og önnur félög.
„Ef það er eitthvað félag sem er úti í kuldanum hjá borginni, þá er það Fjölnir,“ sagði Birgir þá. En nú virðist eitthvað vera að þokast áfram í þessum málum.
Í tilkynningu félagsins segir að knattspyrnudeildin hafi kynnt sínar tillögur að úrbótum og var þeim tekið með opnum huga. Borgarstjóri lýsti yfir vilja borgarinnar til að finna farsælar lausnir á næstu mánuðum.
Næst tekur við vinna að skoða mögulegar útfærslur til þess að bæta aðstöðu knattspyrnudeildarinnar. Knattspyrnudeild Fjölnis lýsti yfir ánægju með fundinn og er reiðubúin í áframhaldandi samstarf við borgina til að tryggja farsæld í aðstöðumálum félagsins.




