Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 21. október 2021 14:00
Elvar Geir Magnússon
Óttast að þýska deildin sé að verða þróunardeild fyrir þá ensku
Fernando Carro.
Fernando Carro.
Mynd: Getty Images
Leverkusen seldi Leon Bailey til Aston Villa.
Leverkusen seldi Leon Bailey til Aston Villa.
Mynd: EPA
Fernando Carro, framkvæmdastjóri Bayer Leverkusen, segir að aukinn fjárhagsstyrkur enskra úrvalsdeildarfélaga sé áhyggjuefni fyrir þýsku deildina.

Leverkusen er með þriðju hæstu launatölur í Þýskalandi en ef liðið væri í ensku úrvalsdeildinni væri það þriðja neðst.

Carro segir að það sé nánast ómögulegt að keppa við ensk félög á leikmannamarkaðnum og það þurfi að finna leið til að minnka bilið í þeim sjónvarpstekjum sem deildirnar fá.

„Auðvitað hefur þetta vond áhrif á okkur. Við reyndum að kaupa leikmann í sumar en á endanum voru nýliðar í ensku deildinni tilbúnir að borga hærri upphæð og betri laun en við, og við erum topp fjögur lið í Þýskalandi," segir Carro.

„Enska úrvalsdeildin er með miklu meira fjármagn en önnur lönd og það er ekki jákvætt fyrir okkur."

Á síðustu fimm árum hefur Leverkusen fengið um 142 milljónir punda með því að selja leikmenn á borð við Bernd Leno, Kai Havertz og Leon Bailey til Englands.

„Það eru sjónvarpssamningarnir sem breyta stöðunni. Það er erfitt hjá okkur að fá inn meiri sjónvarpstekjur. Stærsta breytingin í innkomu getur því orðið með árangri í Evrópukeppnum eða leikmannasölum," segir Carro.

„Á endanum getur þú fengið inn peninga með því að selja. Ensku félögin kaupa og við fáum peningana. En þá er þýska deildin bara orðin eins og þróunardeild fyrir ensku úrvalsdeildina. Borussia Dortmund þarf meira að segja að selja leikmenn til Englands. Eina félagið sem er samkeppnishæft í Bundesligunni í dag er Bayern München."

Það er risastór gjá þegar kemur að peningum frá sjónvarpsrétthöfum í Þýskalandi og Englandi.

„Ég tel að við í Þýskalandi séum ekki eins góðir og aðrar deildir í að markaðssetja okkur. Spánn fær 860 milljónir evra frá sjónvarpssamningum erlendis en við um 200 milljónir. En ef við gætum hækkað þá upphæð í 300 þá værum við enn gífurlega langt frá ensku deildinni," segir Carro.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner