Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, viðurkennir að hann þurfi stundum að breyta vítaspyrnutækni sinni til að rugla markverði í ríminu.
Portúgalinn er með öruggustu vítaskyttum Evrópu en hann hefur aðeins klúðrað fjórum af fjörutíu spyrnum sínum frá því hann gekk í raðir United.
Á þessu tímabili hefur hann skorað úr öllum fimm spyrnum sínum, en hann segir að hann hafi þurft að breyta tækni sinni og rútínu til þess að auka möguleikana á að skora.
„Þú þarft að breyta til þegar þú tekur svona margar vítaspyrnur, en líka af því markverðirnir byrja að fylgjast með þér og læra inn á hvað þú gerir. Þannig ég verð að gera það sama við þá.“
„Ég læri inn á þá og veit hvað þeir gera, hvernig þeir hreyfa sig gegn þessum mismunandi leikmönnum sem þeir mæta. Ég sé hversu nákvæmir þeir eru gegn öðrum og síðan fæ ég mitt tækifæri, en allt þetta veltur á augnabliki leiksins.“
„Mér finnst þægilegast að hoppa og bíða eftir að markvörðurinn taki ákvörðun. Mér finnst það nákvæmast, en ef ég breyti því þá er ég að gefa þeim eitthvað auka til að verja hana. Ég mun gera breyta til þess að þeir lesi ekki of mikið í það sem ég ætla að gera.“
„Maður getur alltaf klikkað, en þú veist alla vega að þú ert að gera þetta af ástæðu. Allir eru ólíkir og margir sem taka vítaspyrnur eru oft með sitt horn og setja boltann þangað. Þeir hafa gert það áður en gera það með föstu skoti og skora samt,“ sagði Fernandes.
Fernandes segist hafa lært þetta af fyrrum framherjanum Fabio Quagliarella, sem hann lék með hjá Sampdoria á Ítalíu. Ítalinn skoraði 41 vítaspyrnumörk á ferlinum.
Þeir tveir spiluðu eitt tímabil saman með Sampdoria áður en Fernandes var seldur til Sporting.
„Þetta er eitthvað sem ég lærði af Fabio Quagliarella þegar ég var hjá Sampdoria. Hann var alltaf að fylgjast með markvörðum varðandi það sem hann átti að gera, hvernig átti að sparka boltanum og í raun allt sem tengist vítaspyrnunni.“
„Hann tók hratt upphlaup og skaut föstu skoti, en hann var alltaf að reyna að skilja hreyfingar markvarðarins og það fékk ég frá honum. Ég vil alltaf læra af þeim bestu,“ sagði Fernandes.
Athugasemdir