Króatíski miðjumaðurinn Luka Modric er enn að gera frábæra hluti bæði með Real Madrid og króatíska landsliðinu þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall.
Modric, sem verður fertugur í september, er talinn vilja endurnýja samning sinn við Real Madrid um eitt ár í ljósi þess hversu vel hann hefur verið að spila.
Modric hefur tekið þátt í 44 leikjum með Real á yfirstandandi tímabili og er oft í lykilhlutverki. Hann er einnig lykilmaður hjá Króatíu og lék allan leikinn í 2-0 sigri gegn Frakklandi á fimmtudagskvöldið.
„Það er enginn að flýta sér að skrifa undir nýjan samning. Það er nóg eftir af tímabilinu. Ég mun skoða þetta þegar allir leikirnir eru búnir," sagði Modric við Telefoot.
„Draumur minn er skýr, ég vil ljúka ferlinum hjá Real Madrid. Ég elska þennan klúbb."
Modric hefur verið hjá Real Madrid í rúman áratug og er með 579 keppnisleiki að baki fyrir félagið. Alvöru goðsögn.
Athugasemdir