Skoska stórveldið Celtic er búið að hafna öðru tilboði frá Evrópudeildarmeisturum Atalanta fyrir danska miðjumanninn Matt O'Riley.
O'Riley átti frábært tímabil með Celtic í fyrra og er eftirsóttur af ýmsum stórliðum en Atalanta leiðir kapphlaupið. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu með Celtic var O'Riley ekki valinn í landsliðshóp Dana fyrir Evrópumótið í Þýskalandi.
Atalanta bauð um 15 milljónir punda fyrir O'Riley auk árangurstengdra aukagreiðslna, en tilboðið var ekki nægilega gott fyrir Celtic sem er byrjað að spila æfingaleiki á undirbúningstímabilinu. Celtic lagði DC United að velli 4-0 í Washington um helgina og bar O'Riley fyrirliðabandið.
Sky Sports segir að Celtic sé ekki reiðubúið til að selja O'Riley á minna heldur en 25 milljónir punda, sem yrði nýtt félagsmet. Dýrasti leikmaður sem hefur nokkurn tímann verið seldur frá Celtic er portúgalski kantmaðurinn Jota sem leikur fyrir Al-Ittihad í Sádi-Arabíu.
Juventus, Roma og Atlético Madrid hafa verið nefnd til sögunnar sem áhugasöm um að festa kaup á O'Riley.
Athugasemdir