Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 22. júlí 2024 17:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Kredit á strákana fyrir að hafa komist í gegnum erfiða tíma"
'Við unnum vel í okkar málum, héldum okkar hugmyndafræði og vissum hvað til þurfti til að snúa þessu við. Kredit á strákana og alla sem koma að liðinu að hafa náð að gera það'
'Við unnum vel í okkar málum, héldum okkar hugmyndafræði og vissum hvað til þurfti til að snúa þessu við. Kredit á strákana og alla sem koma að liðinu að hafa náð að gera það'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
'Við erum ekki það barnalegir að halda að allt sé orðið fullkomið þó að við höfum unnið síðustu leiki'
'Við erum ekki það barnalegir að halda að allt sé orðið fullkomið þó að við höfum unnið síðustu leiki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur Mar er að koma betur og betur inn í lið KA eftir veikindi.
Hallgrímur Mar er að koma betur og betur inn í lið KA eftir veikindi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn er kominn á ágætis ról.
Viðar Örn er kominn á ágætis ról.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob Snær hefur komið frábærlega inn eftir meiðsli.
Jakob Snær hefur komið frábærlega inn eftir meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hlutirnir eru bara að detta meira fyrir okkur og það gefur sjálfstraust og trú á verkefnið'
'Hlutirnir eru bara að detta meira fyrir okkur og það gefur sjálfstraust og trú á verkefnið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hlutirnir eru búnir að smella'
'Hlutirnir eru búnir að smella'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Margeir skoraði sigurmarkið gegn Víkingi um helgina.
Sveinn Margeir skoraði sigurmarkið gegn Víkingi um helgina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gengi KA hefur snarbatnað síðustu vikur eftir erfiða byrjun á mótinu. Í síðustu fimm leikjum hefur KA tekið þrettán stig en fyrir þann kafla hafði liðið einungis fengið fimm stig úr fyrstu tíu leikjunum. Á sama kafla vann liðið einnig frábæran bikarsigur gegn Val og tryggði sér sæti í úrslitaleik Mjókurbikarsins annað árið í röð.

Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson í dag og var hann spurður hvað hefði breyst hjá KA.

Lestu um leikinn: KA 1 -  0 Víkingur R.

„Mér finnst við vera orðnir meira lið inni á vellinum, menn eru tilbúnari í að virkilega fórna sér fyrir hvorn annan. Mórallinn var fínn þó að það hafi gengið illa en nú er hann orðinn frábær. Maður sér það bara í síðasta leik, nokkrum sinnum björguðum við á síðustu stundu. Þó að spilið hafi gengið frekar illa í fyrri hálfleik þá voru allir að leggja sig fram allan tímann. Maður vinnur sér oft inn heppni; það kom alveg nokkrum sinnum fyrir í leiknum gegn Víkingi að við vorum heppnir. Á sama tíma sköpuðum við okkur færi, fleiri en það færi sem við skoruðum úr. Hlutirnir eru búnir að smella."

„Það er staðreynd að stigin voru færri en eðlilegt hefði verið í byrjun tímabilsins - öll tölfræði bendir til þess. Spilamennskan var samt ekki alveg nógu góð. Ég gef kredit á strákana að hafa komist í gegnum erfiða tíma. Við vitum alveg að við erum með gott fótboltalið, en hlutirnir voru ekki að virka. Við unnum vel í okkar málum, héldum okkar hugmyndafræði og vissum hvað til þurfti til að snúa þessu við. Kredit á strákana og alla sem koma að liðinu að hafa náð að gera það,"
sagði Haddi sem er þjálfari KA.

Dugnaður og samstaða
Náðu menn að sætta sig við það að staðan var erfið og með því var hægt að setja einbeitinguna á að komast úr þeirri stöðu?

„Okkur fannst hvorki frammistaðan né liðið vera þannig að við ættum að vera í botnbaráttu. Það var erfitt þegar það svo varð raunin. En menn sneru bökum saman og fóru að hugsa um einn leik í einu, það náðist að setja einbeitingu á hvað þyrfti til að ná að sigra leiki, í stað þess að tala um að við ættum ekki að vera þarna. Eins og ég hef sagt áður þá er árangurinn - og þessir rosalega spennandi tímar síðustu ár - það var erfitt þegar þetta byrjaði að fara í hina áttina. Þess vegna er hrós á menn fyrir að hafa snúið þessu við."

„Ég er rosalega ánægður með þann stað sem við erum á núna. Það virðist vera sama hvernig liði við mætum; sama hvort það eru sterk lið í efri helmingnum eða lið í neðri helmingnum, eða hvort við erum með fjögurra manna varnarlínu eða fimm manna linu - okkur hefur tekist að ná í úrslit og spila vel."

„Í síðasta leik vantaði þrjá inn á miðjuna og á móti Val vantaði líka sterka pósta. Þeir sem hafa komið inn hafa bara staðið sig ótrúlega vel. Þetta er ekki vegna þess að allt í einu fór einn og einn leikmaður að stíga upp, heldur er liðið komið á ótrúlega flottan stað. Jafnvægið í því er flott og þeir sem koma inn koma með framlag."

„En maður þarf ekki að missa fæturna af jörðinni. Við vorum ekki eins slakir og menn vildu tala um í byrjun, og við erum ekkert að fara fram úr okkur þó að það gangi vel núna, það eru ennþá atriði sem við þurfum að bæta. Á móti Víkingi er klárt mál að það er fullt af atriðum sem ég vil að liðið mitt geri betur, en dugnaður og samstaðan kom okkur yfir línuna. Þess vegna unnum við frábæran sigur á móti góðu liði og erum held ég fyrsta íslenska liðið til að halda hreinu á móti Víkingi á þessu ári."


Menn fóru að hafa meiri trú á hlutunum
Eftir landsleikjahlé hefur KA spilað átta leiki og frammistaðan er góð í öllum leikjunum. Liðið vann Fram í bikarnum, tapaði naumlega gegn Breiðabliki í deildinni og svo er það þessi þrettán stiga kafli og bikarsigur gegn Val. Gerðist eitthvað í hléinu sem hefur hjálpað ykkur?

„Nei, ekkert sem gerðist eitthvað sérstaklega þá. Pressan okkar var ekki nógu góð til að byrja með, við vorum heldur ekki alveg að færa nógu vel í færslunum og fengum á okkur ódýr mörk. Það er ekki launungarmál að í byrjun móts þá vantaði okkur pósta fram á við. Við vorum ekki að ná að skora. Við eigum 28 skot í byrjun móts á móti HK en leikurinn fer 1-1."

„Auðvitað munar um lykilmenn. Grímsi (Hallgrímur Mar Steingrímsson) var á sjúkrahúsi í byrjun móts og það munar um það. Viðar (Örn Kjartansson) var ekki kominn í gang og Jakob (Snær Árnason) hefur komið inn af krafti núna, var með brotinn hryggjarlið. Auðvitað munar um þetta, en númer eitt, tvö og þrjú þá fóru menn að hafa meiri trú á því sem við vorum að gera þegar það fór að ganga betur."

„Við erum ekki að gera neitt mikið öðruvísi miðað við í fyrra eða í byrjun móts, hlutirnir eru bara að detta meira fyrir okkur og það gefur sjálfstraust og trú á verkefnið. Við höfum alltaf trú á því að við getum unnið þegar við förum í leiki núna. Stundum leggjum við upp með að vera meira með boltann og stundum leggjumst við aftar. Það hefur bara gengið upp."

„Þessi leikur sem við unnum ekki af síðustu fimm var líka smá óheppni; FH skoraði mark sem var ólöglegt. Við höfum fengið fá mörk á okkur undanfarið og hlutirnir gengið vel. En eins og ég sagði, þá eru fæturnir á jörðinni. Við erum ennþá í hörkubaráttu og þurfum að vinna vel fyrir hlutunum. Þetta getur snúist fljótt í fótbolta."


Meiri samheldni en á öðrum stöðum
Stemningin í kringum KA hefur sömuleiðis batnað og var sem dæmi frábær stemning á bikarleiknum gegn Val.

„Þetta hefur mikið að segja. Þetta er auðvitað þannig að þegar þú ferð að vinna leiki þá er betri stemning heldur en þegar hlutirnir ganga illa. Fyrsta skrefið er náttúrulega að byrja vinna fótboltaleiki og sýna fólki í stúkunni að þetta skipti okkur miklu máli og menn standi saman. Aðdáendur okkar hafa verið frábærir undanfarið og ég held að það hjálpi líka til að við erum með rosalega marga stráka í liðinu sem eru að norðan, eru annað hvort frá Akureyri eða Norðurlandi. Það er meiri samheldni hér en á mörgum öðrum stöðum finnst mér."

„Stemningin er búin að vera rosalega góð, vonandi heldur hún áfram að vera svona því núna gengur betur og það er spenna bæði í strákunum fólkinu að fara ofar í töfluna og liðið komið annað árið í röð í bikarúrslitaleik. Það er mikið hrós á okkar fólk í stúkunni. Ég hef enga trú á öðru en að fólkið standi sig vel áfram og jafnvel gefi enn meira í þegar það fer að nálgast bikarúrslitaleikinn."


Klárt mál að okkur langar í efri hlutann
KA er tveimur stigum frá 6. sæti deildarinnar og sex stigum frá fallsæti. Horfir Haddi í möguleikann á sæti í efri hlutanum eða hugsar hann fyrst um að skilja sig alveg frá fallsvæðinu?

„Ég er sem minnst að horfa í töfluna. Ég viðurkenni að fyrir stuttu síðan var maður mikið að hugsa hvað væri að gerast í kringum okkur, vorum í mikill fallbaráttu. Núna er einbeitingin á að vinna næsta leik. Þetta er svo jafnt, eiginlega jafn stutt niður og upp."

„Ég tel okkur vera með nógu gott lið til að berjast um sæti í efri hlutanum, og það er klárlega markmiðið, en við erum alveg meðvitaðir um að það er fullt eftir af mótinu og það eru ekkert mörg stig niður. Hlutirnir geta breyst fljótt í fótbolta. Við tökum bara stöðuna eftir 22 leiki. Það getur verið ólík nálgun eftir því hvar við endum, en það er klárt mál að okkur langar í efri hlutann, en við erum ekki það barnalegir að halda að allt sé orðið fullkomið þó að við höfum unnið síðustu leiki,"
sagði Haddi.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner