Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 22. ágúst 2019 20:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alfreð ósáttur við fréttaflutning þýskra fjölmiðla
Mynd: Getty Images
Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason er að snúa aftur úr meiðslum sem eru frábærar fréttir fyrir íslenska landsliðið.

Alfreð hefur æft undanfarnar þrjár vikur með liði Augsburg og vonast til að vera með liðinu gegn Union Berlin í 2. umferð þýsku Bundesligunnar um helgina. Morgunblaðið greinir frá í dag.

Alfreð meiddist á kálfa í apríl en eftir stranga endurhæfingu í sumar, meðal annars í Katar og á Íslandi, þá er Alfreð kominn á fulla ferð á nýjan leik.

Landsliðsframherjinn er ósáttur við fréttaflutning þýskra fjölmiðla af meiðslunum. Í þýskum fjölmiðlum var fjallað um það að Alfreð hefði gagnrýnt Manuel Baum, fyrrum þjálfara Augsburg. Alfreð átti að hafa sagt að hann hefði fórnað líkama sínum fyrir Baum.

Alfreð birti yfirlýsingu á Twitter í kvöld þar sem hann segir þetta ekki rétt.

„Það var alltaf sameiginleg ákvörðun hjá mér, þjálfaranum og sjúkraþjálfaranum um hvenær ég myndi spila," skrifar Alfreð og bætir við að ummælin hafi verið tekin úr samhengi.

Eins og áður segir þá gæti Alfreð snúið aftur á fótboltavöllinn um helgina. Þetta eru góð tíðindi fyrir íslenska landsliðið sem mætir Moldavíu og Albaníu í byrjun næsta mánaðar í undankeppni EM. Alfreð var fjarri góðu gamni í leikjunum gegn Albaníu og Tyrklandi í júní vegna meiðslanna.

Alfreð framlengdi á dögunum við Augsburg til 2022. Hann er mjög sáttur hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu.


Athugasemdir
banner
banner
banner