banner
   fim 22. september 2022 10:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mist yrði hissa ef krossbandið væri ekki slitið í fjórða sinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lillý Rut Hlynsdóttir.
Lillý Rut Hlynsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist Edvardsdóttir, einn mikilvægasti leikmaður Íslandsmeistara Vals, fór meidd af velli í fyrri hálfleiknum gegn Slavia Prag í Meistaradeildinni í gær.

„Mist liggur sárþjáð á vellinum. Þetta lítur ekki vel út," skrifaði undirritaður í textalýsingu frá leiknum í gær.

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gat ekki sagt til um það hversu alvarleg meiðslin væru í viðtali eftir leikinn í gær en í samtali við Fótbolta.net í morgun sagði Mist að hún óttaðist það að vera búin að slíta krossband í fjórða sinn.

„Ég kemst vonandi að í myndatöku í dag eða á morgun en ég yrði ofboðslega hissa ef krossbandið er ekki slitið. Öll einkenni, sársaukinn, smellurinn og allt var alveg eins og í hin þrjú skiptin. Eini munurinn bara að þetta gerðist í contact núna," segir Mist í samtali við Fótbolta.net.

Ef krossbandið er slitið þá kemur Mist til með að vera frá næsta árið eða svo. Það yrði mikið áfall fyrir Val enda hefur Mist verið stórkostleg fyrir liðið síðustu árin. Ekki síst væri þetta þó áfall fyrir miðvörðinn frábæra sem hefur verið gríðarlega óheppin með meiðsli á sínum ferli. Í sumar hefur hún myndað ógnarsterkt miðvarðarpar með Örnu Sif Ásgrímsdóttur.

Mist var valin leikmaður ársins hjá Heimavellinum í fyrra, en Fótbolti.net sendir henni batakveðjur.

Lillý kom inn í sinn fyrsta leik í sumar
Lillý Rut Hlynsdóttir kom inn á fyrir Mist í leiknum í gær, en hún hefur sjálf verið að glíma við meiðsli í sumar. Hún var að leika sínar fyrstu mínútur í sumar í leiknum.

„Lillý er sett í erfiða aðstöðu að þurfa að fara inn á. Hún hefur ekki spilað í heilt ár held ég, en hún stóð sig frábærlega og gaman að sjá hana aftur inn á vellinum," sagði Pétur eftir leik í gær.

„Lillý hefur verið með okkur í mánuð að koma sér aftur af stað. Svo er henni bara hent í djúpu laugina og gerði það vel."

Seinni leikurinn gegn Slavia Prag verður í Tékklandi næsta miðvikudag en í millitíðinni á Valur leik gegn Aftureldingu þar sem þær geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með stigi.

Sjá einnig:
Best í 15. umferð: Vonandi verður þetta síðasta endurkoman mín (2020)
„Þetta er hörkulið, þetta er atvinnumannalið"
Athugasemdir
banner
banner