Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   þri 22. desember 2020 15:18
Magnús Már Einarsson
Eiður: Ég er aðstoðarmaður Arnars og hann minn
Icelandair
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson.
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Að sjálfsögðu er markmið okkar að halda íslenska karlalandsliðinu á þeim stalli sem það hefur komið sér, ef ekki fara aftur upp á við," sagði Eiður SmárI Guðjohnsen, nýr aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, á fréttamannafundi í dag.

Eiður verður aðstoðarþjálfari með Arnari Þór Viðarssyni en þeir hafa verið í sömu störfum með U21 landsliðið.

„Þetta er skipti til helminga. Ég er aðstoðarmaður Arnars og hann er aðstoðarmaður minn," sagði Eiður um hlutverkaskiptin í teyminu.

„Þetta snýst allt um að liðið spili af bestu getu og við náum úrslitum. Þá er alveg sama hver gerir hvað í þjálfarateymi. Þetta er ein heild og allir eru að stefna að sama markmiði. Það er framtíðarsýn hjá okkur og við viljum halda í þessi gildi, þjóðarstoltið, vinnusemi og það sem við höfum alltaf haft. Það er ekki hægt að kaupa út í búð. Það er innræktað hjá okkur."

„Án þess að fara djúpt í það þá munum við fylgja mörgu eftir í þeirri hugmyndafræði sem við vorum með í U21 landsliðinu. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við erum að fara að þjálfa karlmenn á meðan sumir í U21 liðinu voru stráklingar. Það er ýmislegt sem fylgir því en sú áskorun er tilhlökkunarefni og ekki að vefjast fyrir okkur."


Eiður og Arnar spiluðu lengi saman í landsliðinu á sínum tíma og þekkjast mjög vel.

„Við Arnar eigum einstakt samband, bæði utan sem innan vallar og á hliðarlínunni. Það er fátt sem getur komið upp á og slitið því sambandi. Ef við erum ósammála þá hækka ég aðeins róminn og Arnar tekur undir það," sagði Eiður léttur í bragði.

Eiður tjáði sig einnig um hvernig þjálfarahlutverkið er í dag. „Þetta snýst ekki um að vera vinur þeirra. Þetta snýst ekki um að þekkja þá rosalega vel en þetta snýst um að sjá hvernig þeim líður inni á vellinum og þvi hlutverki sem þeir eru í. Við búum til ramma sem þjálfarar sem leikmennirnir fara eftir. Það er síðan þeirra hlutverk að mynda sína stemningu og sinn hóp burtséð frá okkur. Hlutverk okkar er að gefa þeim öll tæki og tól til að mynda það."

Eiður þjálfaði FH í sumar og hafði hug á að halda því áfram áður en KSÍ bauð honum starf aðstoðarþjálfara í íslenska landsliðinu.

„Ég vil þakka FH-ingum fyrir frábært tækifæri í sumar. Ég átti stuttan og frábæran tíma þar. Það er gott að allir komust sáttir frá borði og hjálpuðu mér að takast á við þessa áskorun. Tækifærið sem ég er að fá hjá KSÍ er eitthvað sem var ekki hægt að sleppa. Þetta er mikil áskorun en á sama tíma skemmtileg," sagði Eiður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner