Elísabet Gunnarsdóttir hætti sem þjálfari Kristianstad í Svíþjóð í nóvember 2023 en hún tók við nýju starfi núna á dögunum þegar hún var ráðin landsliðsþjálfari Belgíu.
Elísabet er mjög spennt fyrir nýju starfi en hún var orðin æst í því að komast aftur út í þjálfun eftir frekar langa bið.
Elísabet er mjög spennt fyrir nýju starfi en hún var orðin æst í því að komast aftur út í þjálfun eftir frekar langa bið.
„Þessi tími hefur verið blanda af öllu mögulegu. Það er búið að vera rosa skrítið að vera ekki í starfi. Mér fannst það ótrúlega þægilegt fyrstu tvo til þrjá mánuðina en svo var ég farin að sakna þess ótrúlega mikið að vera að þjálfa," segir Elísabet.
„Það komu upp erfiðleikar á síðasta ári líka og mamma mín var veik. Hún býr hérna út í Kristianstad og ég sá mér ekki fært að vera að þjálfa frá apríl fram í september sirka. Það hefði ekkert gengið upp. Það var eiginlega skrifað í skýin að ég ætti ekki að vera að vinna þegar þetta kom upp. Það var ótrúlega gott að geta gefið henni þennan tíma."
„Núna með haustinu hef ég verið aktívt að skoða störf og ég vildi vera komin með vinnu fyrir áramót. Það er eins og það vanti einhver efni í líkamann. Þetta er eiginlega fáránleg tilfinning. Ég hefði ekki getað verið einn mánuð í viðbót án þess að þjálfa, bara ekki séns," segir Elísabet.
Hún var byrjuð að þjálfa aftur í 4. deild í Kristianstad bara til þess að hafa eitthvað að gera.
„Ég gerði það í nóvember og desember. Það var geggjað að vera á vellinum tvisvar í viku og sjá um æfingar. Það er ótrúlegt hvað maður er háð þessu. Ef einhver spyr hver ég er, þá segi ég að ég sé fótboltaþjálfari."
Hvað saknaðirðu mest við þjálfunina?
„Að vera í kringum metnaðarfullt fólk sem er með brennandi markmið og að vera elta eitthvað á hverjum degi. Allar þessar tilfinningar í kringum það að vinna og tapa eða eiga frábæra æfingu og ömurlega æfingu. Það er eitthvað við þetta sem gefur manni ótrúlega mikið," segir Beta.
Allt viðtalið má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir