banner
   mán 23. maí 2022 18:30
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson
Enska uppgjörið - Daníel Geir svarar spurningum
Daníel Geir Moritz.
Daníel Geir Moritz.
Mynd: ÍBV
Patrick Vieira er stjóri tímabilsins að mati Daníels.
Patrick Vieira er stjóri tímabilsins að mati Daníels.
Mynd: Getty Images
Aaron Ramsdale var vanmetinn en er það ekki lengur í dag.
Aaron Ramsdale var vanmetinn en er það ekki lengur í dag.
Mynd: EPA
Fótbolti.net gerir upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni þessa vikuna, leitað verður til sparkspekinga til að svara nokkrum spurningum um tímabilið sem er að baki og tímabilið sem framundan er. Daníel Geir Moritz grunnskólakennari og formaður knattspyrnuráðs ÍBV svarar hér nokkrum laufléttum og skemmtilegum spurningum.

Besti leikmaðurinn? Hér langar mig að minnast á Jarrod Bowen. Hann var algerlega geggjaður, með 12 mörk og 10 stollur. Það breytir því þó ekki að Mo Salah var bestur.

Besti stjórinn? Patrick Vieira var besti stjórinn í ár. Endurnýjun á leikmannahópi gekk mjög vel og var aldrei basl á Crystal Palace. Aðallega er hann bestur út af því að hann fór í mótið og enginn hafði trú á honum.

Flottasta markið? Markið hjá Yarmolenko á móti Aston Villa var eitthvað annað.

Skemmtilegasti leikurinn? Ætli ég setji þetta ekki bara á City - Villa í lokaumferðinni. Mikið undir, fullt af mörkum og nóg af dramatík.

Skondnasta/skemmtilegasta atvikið? Ég hafði gaman af því að sjá Vieira labba eins og Nicholas Cage í Con Air eftir leikinn á móti Everton. Auðvitað á þetta ekki að gerast en hann var grjótharður. Lumbraði á einu gerpi og aðrir ætluðu í hann en hættu snarlega við þegar hann leit í augun á þeim.

Vanmetnasti leikmaðurinn? Litið var á kaup Arsenal á Aaron Ramsdale sem trúðasýningu en sá var vanmetinn. Hann er ekki vanmetnastur í dag en var það klárlega fyrir tímabilið.

Hvaða lið olli mestum vonbrigðum í vetur? Hér kennir ýmissa grasa. Vonbrigði að Chelsea hafi ekki verið í titilbaráttu. Man Utd olli vonbrigðum en hrun Everton sáu fáir í kortunum og eru þeir mestu vonbrigðin.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur? Þarna verð ég að setja minn mann Harry Maguire.

Hvaða lið mun styrkja sig mest í sumar? Það mun verða Newcastle. Vonandi Arsenal en Norðanmenn líklegastir.

Hvernig fannst þér dómgæslan í vetur? Mér fannst hún litast af mikilli ósanngirni í garð Arsenal aftur og aftur. Nú legg ég ekki í vana minn að væla yfir dómgæslu en þetta var oft ótrúlegt og þrátt fyrir VAR.

Þú mátt velja einn leikmann úr liðunum sem féllu og setja í liðið þitt, hvaða leikmaður yrði fyrir valinu? Liðin sem féllu eru sérstaklega mikið samansafn af óspennandi leikmönnun. Ætli ég myndi ekki velja Dennis úr Watford.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner