Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
   sun 23. júní 2024 21:17
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Blikum mistókst að fara á toppinn - Fylkir áfram á botninum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveimur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í Bestu deild karla, þar sem FH lagði Fylki að velli á meðan Breiðablik gerði jafntefli við ÍA og mistókst þannig að taka toppsæti deildarinnar.

Lestu um leikinn: Breiðablik 1 -  1 ÍA

Blikar tóku á móti ÍA og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust afar nálægt því að taka forystuna á 38. mínútu, en Árni Marinó Einarsson bjargaði Skagamönnum og var besti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik með sex markvörslur.

Skagamenn fóru vel af stað í síðari hálfleik og tóku forystuna eftir hornspyrnu á 58. mínútu. Marko Vardic skallaði boltann í netið og komst ÍA nálægt því að tvöfalda forystuna skömmu síðar, en Jón Gísli Eyland Gíslason tók ranga ákvörðun í frábærri stöðu.

Blikar héldu boltanum innan liðsins og reyndu að sækja en áttu í miklum erfiðleikum með að brjóta þéttan varnarmúr Skagamanna á bak aftur og tókst það ekki fyrr en á 82. mínútu, þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu í kjölfar hornspyrnu.

Bakfallsspyrna Kristófers Inga Kristinssonar fór í hendina á varnarmanni ÍA og skoraði Höskuldur Gunnlaugsson örugglega af vítapunktinum.

Það var fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma og fengu bæði lið dauðafæri til að skora sigurmark en boltinn rataði ekki í netið. Fyrst átti Dagur Örn Fjeldsted skot rétt framhjá áður en Viktor Jónsson klúðraði dauðafæri á hinum endanum.

Lokatölur urðu því 1-1 og eru Blikar í öðru sæti, með 26 stig eftir 12 umferðir - einu stigi á eftir toppliði Víkings R. og einu stigi á undan Val.

ÍA er í fjórða sæti, með 17 stig.

Breiðablik 1 - 1 ÍA
0-1 Marko Vardic ('58)
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('82, víti)

Í Hafnarfirði tóku FH-ingar forystuna strax á elleftu mínútu þegar Sigurður Bjartur Hallsson skoraði af stuttu færi. Varnarmenn Fylkis sváfu á verðinum og leyfðu FH-ingum að athafna sig nokkuð frjálslega innan vítateigs til að skora opnunarmarkið.

Lestu um leikinn: FH 3 - 1 Fylkir

Árbæingar svöruðu þó strax með því að komast í dauðafæri, en Orri Hrafn Kjartansson og Emil Ásmundsson klúðruðu báðir fyrir hálfopnu marki. Skömmu síðar setti Vuk Oskar Dimitrijevic boltann í netið en ekki dæmt mark vegna þess að hann notaði handlegginn til að leggja boltann fyrir sig.

Fylkismenn komust aftur í gott færi undir lok fyrri hálfleiks en Nikulás Val Gunnarsson klúðraði eftir að hafa komist einn í gegn á móti Sindra Kristni Ólafssyni, sem gerði mjög vel að verja.

Heimamenn voru því með 1-0 forystu eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en gestunum tókst að gera jöfnunarmark eftir leikhlé. Arnór Breki Ásþórsson skoraði þá verðskuldað mark fyrir Fylki á 73. mínútu, með bylmingsskoti utan vítateigs.

Staðan var því orðin jöfn en Arnór Borg Guðjohnsen, sem var nýlega kominn inn af bekknum, tók forystuna á nýjan leik fyrir FH skömmu síðar. Arnór var réttur maður á réttum stað þegar boltinn datt fyrir hann innan vítateigs og skoraði með föstu skoti sem var í raun óverjandi.

Kjartan Kári Halldórsson var búinn að eiga góðan leik fyrir FH og innsiglaði hann sigurinn á 85. mínútu með þriðja marki Hafnfirðinga eftir slakan varnarleik Fylkis.

Lokatölur urðu 3-1 og stekkur FH upp í fjórða sæti deildarinnar með þessum sigri. Fylkir er áfram á botninum með 7 stig eftir 11 umferðir.

FH 3 - 1 Fylkir
1-0 Sigurður Bjartur Hallsson ('11)
1-1 Arnór Breki Ásþórsson ('73)
2-1 Arnór Borg Guðjohnsen ('76)
3-1 Kjartan Kári Halldórsson ('85)
Athugasemdir
banner
banner