Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 23. september 2021 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Auðvitað er mikið skemmtilegra að gera það í efstu deild"
Jói Kalli
Jói Kalli
Mynd: Haukur Gunnarsson
Fagnað í bikarnum
Fagnað í bikarnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liðið hefur unnið síðustu þrjá leiki sína.
Liðið hefur unnið síðustu þrjá leiki sína.
Mynd: Haukur Gunnarsson
ÍA er í 11. sæti fyrir lokaumferðina í Pepsi Max-deildinni. Liðið mætir Keflavík í lokaleiknum á laugardag og þarf að vinna leikinn til að halda sæti sínu í deildinni.

ÍA kemur inn í leikinn á góðu skriði eftir að hafa lagt Leikni og Fylki í síðustu deildarleikjum og einnig ÍR í bikarnum. Fótbolti.net ræddi við þjálfara liðsins, Jóhannes Karl Guðjónsson.

Með þetta í sínum höndum
„Þetta er mjög spennandi og áhugaverð lokaumferð. Við höfum komist í þessa stöðu með því að vinna síðustu leiki. Við erum komnir með þetta í okkar hendur sem er mjög ánægjulegt," sagði Jói Kalli.

„Við ætlum okkur að vera áfram í deildinni. Við vitum að þetta verður erfitt, Keflvíkingar eru erfiðir heim að sækja en það er búinn að vera mikill stígandi í okkar leik og við ætlum að fylgja því eftir, það er ekki nokkur spurning."

Taktur, trú og gæði
Vitandi að þetta er í ykkar höndum og skriðið að undanförnu, það gefur væntanlega aukna trú á verkefnið, eða hvað?

„Já algjörlega. Menn sem hafa átt slatta inni hafa í undanförnum leikjum farið að sýna sitt rétta andlit. Við erum búnir að finna góðan takt, það er trú í leikmannahópnum og það eru gæði í leikmannahópnum. Það er mikill karakter sem býr í þessum strákum. Við ætlum að sækja þrjú stig til Keflavíkur."

Skemmtilegra í efstu deild
Hversu mikilvægt er fyrir ÍA að halda sæti sínu í deildinni? „Við viljum vera í efstu deild en við erum samt mikið meira að horfa í það að byggja upp öflugt félag og öflugt lið til framtíðar. Það hefur verið tekið til í rekstrinum undanfarin ár, eftir að Geir [Þorsteinsson] tók við hefur hann tekið til í rekstrinum."

„Það er mikilvægt að búa til góðan grunn út frá rekstrinum en við viljum líka búa til góðan grunn í okkar leikmannahóp. Það er mikilvægt að hafa vettfang í meistaraflokki karla fyrir okkar uppöldu leikmenn, við viljum geta gefið þeim tækifæri á því að koma upp í gegnum unglingastarfið okkar og fengið að blómstra í meistaraflokki. Auðvitað er mikið skemmtilegra að gera það í efstu deild."


Hvernig er staðan á hópnum fyrir leikinn? „Já, það virðist vera að eiginlega allir séu klárir. Hallur Flosason lenti í því að handarbrotna gegn Val, hann er byrjaður að æfa aftur sem er mjög jákvætt. Það eru allir klárir í slaginn fyrir leikinn á laugardaginn."

Ætla að sækja stigin þrjú
ÍA þarf ekki að horfa í önnur úrslit, sigur gegn Keflavík er það eina sem kemur til greina. „HK vann Stjörnuna á mánudag og gerðu það virkilega vel. Auðvitað vill maður geta haft þetta í eigin höndum og þetta er í okkar höndum. Sigur tryggir okkur í efstu deild. Ég verð ekkert þreyttur á því að segja að við ætlum að sækja þennan sigur og vera áfram í efstu deild."

Allt annað er ekki í mínum höndum
Er einhver pressa á þér, varðandi þína framtíð sem þjálfari ÍA, að ÍA verði í efstu deild? „Það er pressa á held ég á öllum þjálfurum. Við sem erum að þjálfa fótboltalið vitum að það er alltaf pressa á okkur. Ferill og lífstími þjálfar hjá einu félagi er ekki langur en ég er ekki að spá í því."

„Ég tók þetta verkefni að mér til að geta byggt upp lið fyrir ÍA, mitt uppeldisfélag, til framtíðar. Það er ennþá mitt verkefni og í það fer mín einbeiting. Allt annað er ekki í mínum höndum,"
sagði Jói Kalli að lokum.

Sjá einnig:
Lokaumferðin verður í beinni á X977

laugardagur 25. september
14:00 Víkingur R.-Leiknir R. (Víkingsvöllur)
14:00 Breiðablik-HK (Kópavogsvöllur)
14:00 Keflavík-ÍA (HS Orku völlurinn)
14:00 KA-FH (Greifavöllurinn)
14:00 Stjarnan-KR (Samsungvöllurinn)
14:00 Fylkir-Valur (Würth völlurinn)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner