Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 23. nóvember 2021 12:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Football.London 
Hver er rúmenski Kylian Mbappe sem orðaður er við Arsenal?
Ianis Stoica
Ianis Stoica
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
„Arsenal hefur áhuga á rúmenska framherjanum Ianis Stoica (18) sem spilar fyrir FCSB í rúmensku deildinni. (Sun)," var skrifað í slúðurpakka dagsins.

Football.London fjallar um þessar sögusagnir og segir betur frá því hver Stoica er. Bent er á að Arsenal sé með neikvæða markatölu eftir tólf leiki og liðið einungis skorað þrettán mörk á tímabilinu.

Arsenal á að hafa fylgst með Stoica í tvo mánuði og gæti keypt leikmanninn í janúar. Stoica er fæddur í Búkarest og er hæfileikaríkur sóknarmaður. Hann er fjölhæfur og spilar með FCSB sem áður hét Steau, hann spilar oftast annað hvort sem hægri kantmaður eða sem fremsti maður en getur einnig spilað sem sóknarsinnaður miðjumaður.

Af hverju ætti Arsenal að vilja fá hann?

Tveir sóknarmenn virðast vera á leið frá Arsenal eftir tímabilið. Eddie Nketiah og Alexandre Lacazette eru á lokaári samninga sinna. Ef báðir leikmenn færu þá væri Arsenal einungis með þá Pierre-Emerick Aubameyang og Folarin Balugon sem eignlega framherja. Þess vegna væri ekki svo galið að taka inn Stoica. Félagið er með þá stefnu að taka inn unga leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér og með möguleika á að selja á talsvert hærri upphæðir.

Stoica er mjög hraður og spilar með U21 árs landsliði Rúmeníu. Með hann í liðinu væri hægt að senda inn fyrir varnarlínur og sú ógn myndi færa varnarlínur aftar á völlinn sem myndi gefa Bukayo Saka og Emile Smith Rowe aukið pláss til að leika listir sínar.

Stoica skoraði sitt fyrsta mark fyrir FCSB í frumraun sinni með aðalliðinu fjórtán ára gamall. Hann á að baki yfir 50 leiki með aðalliði félagsins og mögulega gæti Arsenal lánað hann út tímabilið.

Stoica er fullur sjálfstrausts og var í viðtali spurður hvaða leikmanni hann líktist. „Ég held ég sé líkur Kylian Mbappe," sagði Stoica.

Eigandi FCSB, Gigi Becali, hafði þetta að segja um málið: „Það er gott að Arsenal sé að fylgjast með Ianis en það er enginn tilgangur því hann er ekki til sölu. Hann gæti verið það eftir eitt ár eða tvö en hann er það ekki núna. Hann er teknískur, sterkur og mjög klár. Þú myndir halda að hann væri 23 ára en ekki átján," sagði Becali við Prosport.
Athugasemdir
banner