fös 24. febrúar 2023 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Markmið Barcelona var að vinna Evrópudeildina - „Ég er mjög vonsvikinn"
Mynd: Getty Images
Jules Kounde, varnarmaður Barcelona, var vonsvikinn eftir að liðið datt úr leik í Evrópudeildinni í gær.

Börsungar töpuðu fyrir Manchester United á Old Trafford, 2-1, í gær en samanlagt fór enska liðið áfram, 4-3.

Barcelona var marki yfir í hálfleik en United kom til baka í síðari og kláraði dæmið.

„Þetta er rosalega sársaukafullt. Við vildum fara áfram og spiluðum vel í fyrri hálfleik. Við fáum á okkur mark snemma í síðari hálfleik og misstum við stjórnina eftir það. Ég er mjög vonsvikinn.“

„Við verðum að hrósa andstæðingnum. Þeir fóru í næsta gír í síðari hálfleiknum og gerðu okkur erfitt fyrir. Við börðumst en þetta eru klár vonbrigði því markmiðið var að vinna Evrópudeildina,“
sagði Kounde við Movistar.

Barcelona fékk á sig sextán mörk í Evrópu á þessu tímabili en liðið hefur aðeins fengið á sig sjö mörk í La Liga.

„Það var mikið um meiðsli í Meistaradeildinni. Andstæðingarnir eru sterkari í Evrópu og við höfum spilað við stór lið eins og Bayern, Inter og Man Utd. Þetta eru sterk lið. Við munum læra af þessu og þurfum núna að taka skrefið fram á við og ég er viss um að við munum gera betur á næsta tímabili,“ sagði Kounde enn fremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner