Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 24. september 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Atli Gunnar beið í átján leiki eftir sigri - „Pressan var öll á Árna"
Boltinn á leiðinni yfir
Boltinn á leiðinni yfir
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ákvað að skutla sér til hægri
Ákvað að skutla sér til hægri
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fyrsti sigurleikurinn sem byrjunarliðsmaður
Fyrsti sigurleikurinn sem byrjunarliðsmaður
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Atli hélt hreinu gegn Breiðabliki
Atli hélt hreinu gegn Breiðabliki
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið.
Hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Viðarsson fagnaði sigri og fagnaði með Atla Gunnari
Pétur Viðarsson fagnaði sigri og fagnaði með Atla Gunnari
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þegar vítaspyrna var dæmd á FH.
Þegar vítaspyrna var dæmd á FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Atli Gunnar Guðmundssson varði mark FH gegn Breiðabliki síðasta sunnudag. Með sigri hefði Breiðablik verið áfram í bílstjórasætinu í baráttunni um Íslansdsmeistaratitilinn.

Breiðabliki tókst ekki að skora framhjá Atla í leiknum og vann FH 1-0 sigur. Víkingur lagði KR í dramatískum leik á sama tíma og er nú í efsta sæti deildarinnar. Lokaumferðin fer fram á morgun, allir leikirnir fara fram klukkan 14:00.

Atli Gunnar gekk í raðir FH eftir að hafa leikið með Fjölni undanfarin ár. Á síðasta tímabili vann Fjölnir ekki leik í efstu deild og hafði Atli aldrei byrjað leik í efstu deild sem endaði með sigri hans liðs. Hann var vissulega í sigurliði gegn Stjörnunni en hann byrjaði ekki þann leik.

Í sumar hefur Atli verið varamarkvörður fyrir Gunnar Nielsen á þessu tímabili. Gunnar fékk rauða spjaldið gegn Stjörnunni fyrir tæpum tveimur vikum og stóð Atli milli stangana út þann leik og gegn Breiðabiki þegar Gunnar tók út leikbann.

Það er umtalað að Breiðablik fékk vítaspyrnu á 76. mínútu gegn FH en Árni Vilhjálmsson skaut yfir úr vítinu. Fótbolti.net ræddi við Atla Gunnar í dag og spurði hann út í leikinn gegn Breiðabliki.

Sjá einnig:
„Ákvað að taka mér pásu af persónulegum ástæðum" (17. apríl)
Árni skipti um skoðun þegar Atli Gunnar fór af stað

„Það var geggjað, frábær leikur til að koma inn í. Það var mikið undir, mikil stemning á leiknum og áhorfendafjöldinn var langt umfram allt sem hefur verið í sumar, 1300 manns á leiknum. Stemningin var eftir því og það var geðveikt að spila þennan leik,“ sagði Atli Gunnar.

Pældi aðeins meira í sumum atriðum
Hvernig var undirbúningurinn fyrir leikinn?

„Mér leið bara vel, við æfðum eins og vikuna á undan nema þetta var aðeins öðruvísi fyrir mig vitandi að ég væri að fara spila. Þá pældi maður aðeins meira í hinum og þessum atriðum eins og föstum leikatriðum. Annars var æfingavikan bara hefðbundin og ég hef alltaf gert.“

Fyrsti sigurinn sem byrjunarliðsmaður í efstu deild
Fyrsti byrjunarliðsleikurinn sem endar með sigri þíns liðs, hvernig var tilfinningin?

„Hún var mjög góð. 1-0 sigur, halda hreinu er alltaf geggjað. Það er svolítið óvenjulegt að vera búinn að spila nítján leiki í efstu deild og þetta var fyrsti sigurinn sem byrjunarliðsmaður. Tímabilið í fyrra var ekki alveg til útflutnings og út frá því er sú staðreynd kannski eðlileg. Þetta var bara frábært, geðveikt að vinna þennan leik.“

Eins og ég hefði ekki gert annað
Var eitthvað stress í kringum leikinn?

„Það var spenningur, smá stress á leikdegi. Maður ímyndaði sér hvernig leikurinn myndi vera og reyndi að búa til ákveðnar aðstæður sem gætu myndast. Um leið og leikurinn byrjaði þá eiginlega fór öll tilfinning og ég var bara mættur í leik eins og ég væri á æfingu. Mér leið það vel að mér fannst eins og ég hefði eiginlega ekki gert annað.“

Pressan var öll á Árna
Geturu lýst fyrir mér augnablikunum í kringum vítaspyrnuna?

„Við vorum búnir að verjast ógeðslega vel og mér fannst forystan vera verðskulduð. Við skoruðum mjög gott mark úr föstu leikatriði og maður hugsaði: „Ótrúlegt að þeir skildu fá þetta tækifæri til að jafna.“ Þetta átti alveg að vera víti en við vorum búnir að vera svo góðir úti á vellinum".

„Ég var meðvitaður um að pressan væri öll á Árna því þeir þurftu að ná þessu marki. Ég var bara frekar rólegur, ákvað að bíða eins lengi og ég gat en ákvað svo að fara í hægra hornið. Ég veit ekki hvort að ég hafi truflað hann af því hann ætlaði að skjóta þangað eða hvort það var að ég beið of lengi."

„Það allavega fór sem fór og þó að ég hafi ekki einu sinni varið vítið þá kom Pétur hlaupandi að mér fagnandi. Ég bjóst ekki við því að hann væri að fagna því með mér því ég varði ekkert vítið en geggjað að þeir skildu ekki skora.“


Ætluðu ekki að leyfa neitt partý í Kaplakrika
Hvernig fóruð þið í þennan leik, ætluðuð þið að skemma fyrir Blikum?

„Það var kannski ekki beint markmiðið í leiknum, ég held að það hafi ekki verið í hausnum að skemma fyrir Blikum. Ég held að við vildum aðallega fá góðan leik gegn einu besta liðinu í deildinni akkúrat núna og sýna að við getum unnið þá þó þeir hafi verið á því skriði sem þeir voru."

„Við einblíndum á frammistöðuna okkar og fylgdum okkar leikplani ógeðslega vel. Við vorum frekar kokhraustir að við myndum ná góðum úrslitum því við vissum að það var pressa á þeim.

„Við vorum ekkert að fara leyfa þeim að halda eitthvað partý í Kaplakrika, það var ekki í boði en fyrst og fremst vorum við að hugsa um okkar leik.“


„Takk"
Hefuru fengið einhver skilaboð frá Víkingum í vikunni? „Ég hef reyndar fengið frá tveimur góðum Víkingum sem ég þekki vel. Þeir sögðu „takk“. Ég held að flestir Víkingar hafi verið glaðir með sinn eigin markmann hann Ingvar Jóns fyrir að verja.“

Gott að fá mínúturnar gegn Stjörnunni
Þú komst inn á gegn Stjörnunni þegar Gunnar Nielsen fékk rauða spjaldið. Hjálpuðu mínúturnar inn á vellinum í þeim leik til að komast í takt fyrir leikinn gegn Breiðabliki?

„Já, ég held að það hafi verið mjög gott. Það var þægilegt að koma inn í þann leik. Það var ekki mjög hraður leikur, það voru níu útileikmenn í hvoru liði. Það var mikið pláss og auðvelt að finna svæði. Það var auðvelt fyrir mig að fá boltann til baka og ekki mikið stress á manni. Það var afslappaður leikur og fínt að fá hann áður en ég fékk þennan Blikaleik, ég viðurkenni það alveg.“

Gæti byrjað gegn KA
Ertu að fara spila gegn KA á morgun?

„Ég bara veit það ekki, ég fæ sennilega að vita það á æfingu á eftir en eins og staðan er núna veit ég það ekki. Auðvitað vonast maður alltaf eftir því að fá að spila. Það kemur í ljós.“

Ekki verið rætt um framlengingu
Samningur þinn er að renna út eftir tímabilið, hefur verið rætt við þig um mögulega framlengingu?

„Nei, það hefur ekki verið rætt. Það kemur bara í ljós hvað gerist. Það er þessi eini leikur eftir og mögulega eftir hann verða einhverjar viðræður, ég bara veit það ekki.“

Lærdómsríkt sumar og framfarir
Hvernig finnst þér þetta sumar hafa verið?

„Lærdómsríkt er orðið sem ég myndi nota. Þó að ég hafi eiginlega ekki neitt spilað þá finnst mér ég samt sem áður vera búinn að bæta mig helling sem bæði karakter í fótboltanum og sem leikmaður."

„Þegar þú ert að æfa í svona aðstæðum, með svona góðum leikmönnum í kringum þig þá geturu eiginlega ekkert annað en bætt þig og mér finnst ég hafa gert það. Mér finnst ég hafa tekið framförum þó að ég hafi lítið spila.“


Hanskarnir héngu upp á snaga
Varstu nálægt því að leggja hanskana á hilluna áður en FH kom upp sem möguleiki?

„Kannski ekki alveg að leggja á hilluna en þeir voru hangandi upp á snaga. Ég ætlaði að sjá til hvað myndi gerast og svo kom FH upp og ég gat ekki sagt nei við þessu tækifæri. Þetta var skemmtilegt sumar, fórum í Evrópuferðir og ég sé alls ekki eftir að hafa tekið þátt í þessu,“ sagði Atli Gunnar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner