
Afturelding og Vestri munu spila um sæti í Bestu deild karla á Laugardalsvelli á laugardag í sögulegum úrslitaleik.
Afturelding gulltryggði sig inn í úrslitaleik umspilsins með 3-0 sigri á Leikni á Malbiksstöðinni að Varmá í dag.
Afturelding 3 - 0 (Samanlagt, 5-1) Leiknir R.
1-0 Arnór Gauti Ragnarsson ('17 )
2-0 Oliver Bjerrum Jensen ('19 )
3-0 Ivo Alexandre Pereira Braz ('25 )
Lestu um leikinn
Heimamenn unnu fyrri leikinn 2-1 og tókst að gera út um einvígið á átta mínútum í fyrri hálfleik.
Arnór Gauti Ragnarsson kom Afturelding í 1-0 á 17. mínútu eftir að Ivo Braz skallaði boltann út í teiginn á Arnór sem kláraði vel og tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Oliver Bjerrum Jensen forystuna eftir sendingu frá Aroni Elí Sævarssyni.
Ivo Braz skoraði þriðja markið á 25. mínútu. Bjarni Páll Linnet Runólfsson kom með laglegan bolta fyrir markið, Braz tók við honum áður en hann kláraði í netið og staðan 3-0.
Daníel Finns Matthíasson átti skot í slá úr aukaspyrnu undir lok hálfleiksins. Mark sem hefði gefið Leiknismönnum einhverja von, en inn vildi boltinn ekki.
Afturelding gat bætt við fleiri mörkum í þeim síðari. Liðið fékk góða sénsa og þá reyndu Leiknismenn að koma til baka, en það varð ekki af því. Öruggur 3-0 sigur Aftureldingar sem vann einvígið samanlagt, 5-1, og er því komið í úrslit umspilsins.
Vestri gerði sitt í Grafarvogi
Vestri mun mæta Aftureldingu í úrslitum eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Fjölni á Extra-vellinum og fer því samanlagt áfram 2-1.
Fjölnir 1 - 1 Vestri (Samanlagt 1-2)
0-1 Vladimir Tufegdzic ('38 )
1-1 Guðmundur Karl Guðmundsson ('49 )
Rautt spjald: ,Ibrahima Balde, Vestri ('61)Bjarni Þór Hafstein, Fjölnir ('68) Lestu um leikinn
FJölnismenn voru ákveðnir í því að snúa einvíginu sér í hag í dag en útlitið var ekki gott þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks því Vestri leiddi með marki Vladimir Tufegdzic.
Benedikt Warén stakk boltanum inn fyrir á Tufegdzic sem kláraði vel framhjá Sigurjóni Daða Harðarsyni í markinu. Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, vildi fá rangstöðu á Tufegdzic, en fékk ekki.
Fjölnismenn komu öflugir inn í síðari hálfleikinn. Guðmundur Karl Guðmundsson jafnaði metin er hann kom með hlaup inn úr djúpinu og kláraði listavel í hægra hornið.
Ibrahima Balde, leikmaður Vestra, var rekinn af velli með sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir einvígi við Dofra Snorrason, en sjö mínútum síðar var jafnt í liðum eftir glórulaust atvik þar sem Bjarni Þór Hafstein sparkaði í Tufegdzic þegar enginn bolti var nálægt.
Fjölnismenn reyndu að ná í jöfnunarmark í einvíginu undir lok leiks og fékk liðið alveg færin til þess en markið kom ekki og er það því Vestri sem mun mæta Aftureldingu á Laugardalsvelli á laugardag.
Afturelding, eins og Vestri, hefur aldrei spilað í efstu deild og því sögulegur leikur framundan.
Athugasemdir