Ítalski varnarmaðurinn Giovanni Leoni upplifði drauminn þegar hann spilaði með Liverpool gegn Southampton í deildabikarnum í gær en sá draumur breyttist í martröð þegar skammt var til leiksloka.
Þessi 18 ára miðvörður kom til Liverpool frá Parma í síðasta mánuði, en hann stóð sig frábærlega í frumraun sinni og kom á óvart hversu yfirvegaður hann var í sínum aðgerðum miðað við aldur.
Á 81. mínútu fór Leoni í baráttu við leikmann Southampton út við hliðarlínu með þeim afleiðingum að sá ítalski meiddist á hné og var í kjölfarið borinn af velli á sjúkrabörum.
Arne Slot, stjóri Liverpool, sagði eftir leikinn að útlitið væri ekki gott og staðfesti félagið í dag að krossbandið væri slitið. Leoni verður því frá næstu mánuði og mun líklega ekki snúa aftur fyrr en í fyrsta lagi í lok tímabils.
Endurhæfing er framundan hjá Leoni sem vonast til að snúa aftur á völlinn sem allra fyrst.
„Ég vil þakka öllum þeim sem hafa sýnt mér stuðning á þessu erfiða augnabliki. Þetta var ekki frumraunin sem mig hafði alltaf dreymt um, en ég mun gefa allt mitt til þess að spila aftur á þessum sérstaka leikvangi eins fljótt og mögulegt er. Innilegar þakkir til ykkar allra,“ skrifaði Leoni á Instagram.
Athugasemdir