Times birti áhugaverðan pistil frá Graeme Souness í blaði sínu í dag en þar talar hann um egypska leikmanninn Mohamed Salah og eigingirni hans á vellinum.
Fáir hafa verið betri í byrjun leiktíðar en Salah. Hann dansar í gegnum varnir andstæðinganna og hefur líklega aldrei verið betri og fengið mikið lof fyrir það.
Salah bætir hvert metið á fætur öðru hjá Liverpool. Souness er hrifinn af Salah og gefur það í skyn í pistlinum.
Hann talar um að hann sé eigingjarn og að hæfileikarnir leyfi honum það enda skapar hann alltaf hættu fyrir framan markið.
„Ég er sammála Jürgen Klopp um að Mohamed Salah sé besti leikmaðurinn í heimi á þessu tímabili. Hann er líklega gráðugasti leikmaður sem ég hef séð. Öll stærstu nöfnin í boltanum eru með það í leik sínum en hann er ótrúlega eigingjarn."
„Persónuleg marmkið eru honum mikilvæg og hann reynir alltaf að skjóta þegar hann fær boltann, sem getur pirrað liðsfélagana á köflum og þá sérstaklega Mane. Aðrir leikmenn sætta sig við það því hann er svo góður."
„Hann skorar eða lætur markmenn hafa fyrir hlutunum svo að frákastið endar örugglega fyrir framan markið svo einhver annar getur skorað og því er erfitt að gagnrýna hann."
„Hann gæti jafnvel tekið því sem hrósi að mér finnist hann vera eigingjarnasti leikmaður sem ég hef séð, því hann er alger markavél."
Liverpool á að gefa honum gull og græna skóga
Salah er með samning við Liverpool til 2023 en viðræður hafa gengið hægt á milli hans og félagsins. Hann vill ólmur vera áfram en talið er að Liverpool sé ekki reiðubúið að greiða honum þann launapakka sem hann fer fram á.
„Ég ætla ekkert að velta steinum yfir því hvað hann er að biðja um í laun en Liverpool ætti samt að gefa honum það. Það er hagur félagsins að borga honum eins mikið og ráð er á og líka fyrir Salah að vera áfram hjá félaginu þar sem hann hefur átt sín bestu ár á ferlinum," skrifaði hann í lokin.
Athugasemdir