Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 24. nóvember 2021 22:05
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Man City vann riðilinn - Draumamark Thiago í sigri á Porto
Thiago skoraði magnað mark
Thiago skoraði magnað mark
Mynd: EPA
Gabriel Jesus sá um PSG
Gabriel Jesus sá um PSG
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Junior Messias skoraði sigurmark Milan gegn Atlético
Junior Messias skoraði sigurmark Milan gegn Atlético
Mynd: EPA
Manchester City tryggði sér toppsætið í A-riðli Meistaradeildar Evrópu með því að vinna franska stórveldið Paris Saint-Germain, 2-1, á Etihad-leikvanginum í kvöld. Liverpool lagði þá Porto á Anfield, 2-0.

City og PSG voru þegar búin að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslit fyrir þessa viðureign en þessi leikur var um toppsætið í riðlinum.

Heimamenn spiluðu frábæran fótbolta í fyrri hálfleik. Presnel Kimpembe bjargaði á línu frá Rodri á 6. mínútu og þá átti Ilkay Gündogan skot í stöng eftir rúman hálftímaleik.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum en það var PSG sem gegn gangi leiksins, tókst að gera fyrsta markið. Kylian Mbappe skoraði á 50. mínútu eftir fyrirgjöf frá Lionel Messi. Boltinn fór af varnarmanni City og fyrir Mbappe sem skoraði framhjá Ederson í markinu.

Raheem Sterling jafnaði metin á 63. mínútu. Kyle Walker átti fyrirgjöf sem Gabriel Jesus framlengdi á fjærstöngina og þar var Sterling sem jafnaði metin. Fjórtán mínútum fyrir leikslok kom svo sigurmarkið frá Jesus eftir gott spil. Bernardo Silva lagði boltann fyrir Jesus sem tryggði City toppsætið. Liðið er nú með 12 stig á toppnum, fjórum meira en PSG sem er í öðru sæti.

RB Leipzig vann Club Brugge nokkuð örugglega, 5-0, í sama riðli þar sem Emil Forsberg og Christopher Nkunku skoruðu tvívegis. Andre Silva komst einnig á blað en eins og staðan er núna fer Leipzig í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Thiago gerði draumamark í sigri á Porto

Liverpool, sem var búið að vinna B-riðil, fyrir leik þeirra gegn Porto tókst að vinna 2-0. Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, setti nokkra lykilmenn á bekkinn og gaf öðrum leikmönnum tækifæri.

Sadio Mane skoraði fyrir Liverpool á 37. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Porto fékk nokkur ágætis færi til að skora í fyrri hálfleiknum en ákvarðanatökur liðsins á síðasta þriðjungnum varð þeim að falli.

Thiago Alcantara kom Liverpol yfir með glæsilegu marki í upphafi síðari hálfleiks. Liverpool átti aukaspyrnu sem var hreinsuð út og mætti Thiago á ferðinni og hamraði boltanum fyrir utan teig og í hægra hornið. Stórglæsilegt mark hjá Spánverjanum.

Takumi Minamino hélt hann hefði bætt við öðru stuttu síðar en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu. Átta mínútum síðar kom annað mark Liverpool og að þessu sinni var það Mohamed Salah.

Hann og Jordan Henderson áttu gott spil áður en Salah fíflaði varnarmann Porto og setti svo boltann í hægra hornið. 2-0 sigur Liverpool staðreynd og liðið með 15 stig af 15 mögulegum á toppnum.

Milan er komið í baráttuna um annað sæti eftir 1-0 sigur á Atlético í kvöld. Junior Messias skoraði eina markið eftir að hafa komið inná sem varamaður. Markið kom á 87. mínútu og þýðir það að Milan er nú með 4 stig, jafnmörg og Atlético, og einu stigi á eftir Porto sem er í öðru sæti fyrir lokaumferðina.

Sporting Lissabon er þá komið í 16-liða úrslit eftir 3-1 sigur á Borussia Dortmund. Pedro Goncalves skoraði tvö mörk fyrir Sporting í leiknum en liðið fer með Ajax áfram. Dortmund þarf að sætta sig við Evrópudeildina.

Real Madrid og Inter eru þá komin áfram í 16-liða úrslitin en Madrídingar unnu Sheriff 3-0 í Moldóvu. David Alaba gerði fyrsta markið úr aukaspyrnu áður en Toni Kroos skoraði laglegt mark, slá og inn. Karim Benzema gulltryggði sigurinn með marki eftir sendingu frá Ferland Mendy. Madrídarliðið er á toppnum með 12 stig og Inter í öðru með 10 stig. Þetta þýðir að Inter fylgir Real Madrid í 16-liða úrslitin.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Manchester City 2 - 1 Paris Saint Germain
0-1 Kylian Mbappe ('50 )
1-1 Raheem Sterling ('63 )
2-1 Gabriel Jesus ('76 )

Club Brugge 0 - 5 RB Leipzig
0-1 Christopher Nkunku ('12 )
0-2 Emil Forsberg ('17 , víti)
0-3 Andre Silva ('26 )
0-4 Emil Forsberg ('45 )
0-5 Christopher Nkunku ('90 )

B-riðill:

Atletico Madrid 0 - 1 Milan
0-1 Junior Messias ('87 )

Liverpool 2 - 0 Porto
1-0 Thiago Alcantara ('52 )
2-0 Mohamed Salah ('70 )

C-riðill:

Sporting 3 - 1 Borussia D.
1-0 Pedro Goncalves ('30 )
2-0 Pedro Goncalves ('39 )
3-0 Pedro Porro ('81 )
3-1 Donyell Malen ('90 )
Rautt spjald: Emre Can, Borussia D. ('75)

D-riðill:

Sherif 0 - 3 Real Madrid
0-1 David Alaba ('30 )
0-2 Toni Kroos ('45 )
0-3 Karim Benzema ('55 )
Athugasemdir
banner