banner
   fim 24. nóvember 2022 17:59
Ívan Guðjón Baldursson
HM: Portúgal lagði Gana eftir spennandi lokakafla - Sjáðu mörkin
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Portúgal 3 - 2 Gana
1-0 Cristiano Ronaldo ('65, víti)
1-1 Andre Ayew ('73)
2-1 Joao Felix ('78)
3-1 Rafael Leao ('80)
3-2 Osman Bukari ('89)


Portúgal og Gana áttust við í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins og var staðan markalaus eftir fyrri hálfleik þar sem Portúgalir sýndu mikla yfirburði og áttu Ganverjar ekki eina marktilraun.

Cristiano Ronaldo kom boltanum í netið en dómarinn var búinn að flauta vegna afar léttvægs brots Ronaldo í aðdragandanum. Það reyndist umdeildur dómur og nokkru síðar dæmdi dómarinn aukaspyrnu gegn Joao Felix þegar hann hefði mögulega getað fengið vítaspyrnu.

Síðari hálfleikurinn var talsvert fjörugari en sá fyrri, sérstaklega eftir að Ronaldo braut loks ísinn með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 65. mínútu.

Andre Ayew jafnaði fyrir Gana átta mínútum síðar eftir undirbúning frá hinum líflega Mohammed Kudus, eftirsóttum leikmanni Ajax, en fimm mínútum eftir það var Joao Felix búinn að koma Portúgölum yfir á nýjan leik. Skömmu síðar setti varamaðurinn Rafael Leao þriðja mark Portúgals en Ganverjar voru ekki á því að gefast upp.

Osman Bukari minnkaði muninn á 89. mínútu og var bætt níu mínútum við í uppbótartíma. Ganverjum tókst þó ekki að jafna þar sem Portúgalir gerðu vel í að drepa tímann síðustu mínúturnar og gáfu ekki færi á sér fyrr en á lokasekúndunum, þegar Inaki Williams stal boltanum af markverði Portúgala en rann og tókst ekki að nýta sér tækifærið.

Portúgal er með þrjú stig á meðan Úrúgvæ og Suður-Kórea deila einu stigi. Gana er án stiga.


Athugasemdir
banner
banner