þri 25. febrúar 2020 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Í ensku úrvalsdeildinni eftir „mjög góða reynslu" í Vestmannaeyjum
Emma Rose Kelly í leik með ÍBV síðasta sumar.
Emma Rose Kelly í leik með ÍBV síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emma Rose Kelly lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Birmingham City á sunnudag er liðið tapaði á heimavelli gegn Bristol City í fallbaráttuslag í ensku úrvalsdeildinni.

Emma Kelly er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðsvæðinu, sem sóknarmaður og kantmaður.

Síðasta sumar lék hún í Vestmannaeyjum með ÍBV. Hún spilaði alla 18 leiki ÍBV í Pepsi Max-deildinni og skoraði þrjú mörk.

Hún var í viðtali við fjölmiðlateymi Birmingham fyrir leikinn gegn Bristol City þar sem hún ræddi tímann í Vestmannaeyjum. Viðtalið var gefið út í leikjabæklingi fyrir leikinn gegn Bristol, sem fór eins og áður segir fram síðasta sunnudag.

„Ég öðlaðist mjög góða reynslu á Íslandi og er það ein besta reynsla sem ég hef fengið í fótbolta hingað til," segir hinn 22 ára gamla Kelly.

„Ég naut þess mikið, en það var mikið sem var öðruvísi. Þjálfarinn og stelpurnar töluðu íslensku, en það reyndist stundum erfitt að lýsa æfingum og þess háttar. Venjuleg samtöl gátu líka verið erfið," útskýrir Kelly en tekur það fram að það hafi ekki verið mikið vandamál þegar leið á tímann í Vestmannaeyjum.

Hún segir að tíminn á Íslandi hafi gert það að verkum að hún sé núna sjálfstæðari; hún lærði að elda og þrífa.

„Með því að fara þangað varð ég sjálfstæðari. Ég myndi ekki segja að ég hafi alist upp með silfurskeið en ég fékk mikla hjálp frá foreldrum mínum, fjölskyldu og vinum. Ég varð að læra að elda og þrífa, og skipuleggja sjálfa mig miklu meira."

„Þess vegna var ég meira undirbúin að flytja aftur til Englands og fara í félag sem er nokkrum klukkutímum frá heimahögunum."

Emma og stöllur hennar í Birmingham eru í harðri fallbaráttu, en liðið er sem stendur í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar af 12 liðum.
Athugasemdir
banner
banner
banner