
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er komin af stað en hún hefur lítið spilað síðan á EM síðasta sumar.
Hún hefur verið að berjast við meiðsli en hún kom inn á sem varamaður í liði Bayern gegn Benfica í Meistaradeildinni rétt fyrir jól. Þá spilaði hún síðustu fimm mínúturnar.
Það voru fyrstu mínúturnar sem hún hafði spilað síðan á EM en hún var í fyrsta sinn í byrjunarliði á Pinatar Cup með landsliðinu í vikunni.
Hún var í leikmannahópi Bayern í dag sem vann Potsdam 3-0 í þýsku deildinni. Hún kom inn á sem varamaður þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Glódís Perla Viggósdóttir var að venju í hjarta varnarinnar.
Liðið er með 31 stig eftir 12 leiki í 2. sæti en Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg eru á toppnum með 36 stig.