Brasilíski framherjinn Endrick segist vera smeykur um að missa af tækifærinu til að spila með Brasilíu á HM á næsta ári.
Endrick var keyptur til Real Madrid fyrir rúmlega tveimur árum síðan en gat ekki gengið til liðs við félagið fyrr en síðasta sumar, eftir að hann hafði átt 18 ára afmæli.
Táningurinn hefur ekki fengið mikið af tækifærum hjá Real Madrid en er þó búinn að skora 6 mörk á tímabilinu. Hann hefur komið við sögu í 28 leikjum en ekki spilað mikið meira heldur en í 500 mínútur. Hann fær yfirleitt að spila síðustu mínútur leikja og uppbótartímann.
„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er ég mjög hræddur um að missa af HM 2026," sagði Endrick í spjalli við goðsögnina Romário.
„Það er meira að segja erfitt fyrir mig að tala um þetta, þetta er draumurinn minn. Ég þrái ekkert heitar en að hjálpa Brasilíu að sigra heimsmeistaramótið í sjötta sinn."
Endrick er í landsliðshópi Brasilíu en kom ekki við sögu í 2-1 sigri gegn Kólumbíu á dögunum. Hann vonast til að fá að spreyta sig gegn Argentínu í nótt.
Ef hann fær ekki meiri spiltíma hjá Real gæti hann farið fram á að vera lánaður fyrir upphaf næstu leiktíðar. Þá fær hann tækifæri til að sanna sig hjá öðru félagsliði og halda í sætið sitt í brasilíska landsliðshópnum.
Athugasemdir