Íslenska kvennalandsliðið er á endasprettinum í undirbúningi fyrir EM sem hefst þann 6. júlí á Englandi.
Það var opin æfing á Laugardalsvelli í dag þar sem margir áhorfendur mættu til að fylgjast með landsliðinu æfa áður en þær fara til Póllands á morgun þar sem þær mæta Póllandi í æfingaleik þann 28. júní.
Sandra Sigurðardóttir var til viðtals hjá Fótbolta.net eftir æfinguna í dag.
„Ég er ótrúlega glöð með allt þetta fólk sem kom, bara stemning og maður finnur fyrir stuðningi. Maður fær gleði í hjartað, maður getur hitt einhverja áður en maður fer."
Sandra var afbrýðisöm út í krakkana sem mættu og fengu eiginhandaráritun frá landsliðskonunum.
„Það er gaman að vera fyrirmynd og geta gefið krökkunum eitthvað. Ég vildi að þetta hefði verið svona þegar ég var yngri," sagði Sandra.
Sandra er að fara á sitt fjórða stórmót, í fyrsta sinn sem aðalmarkvörður. Er það öðruvísi?
„Já að sjálfsögðu. Það hefur margt breyst frá því ég fór fyrst. Ég er orðin eldri og meiri þroski í mig og hlutverk mitt hefur breyst. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu," sagði Sandra.